Flýtilyklar
Ívar Arnbro framlengir út 2027 - lánaður í Völsung
Ívar Arnbro Þórhallsson hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn út sumarið 2027. Á sama tíma hefur hann verið lánaður til Völsungs þar sem hann mun leika með liðinu í næstefstu deild.
Ívar sem verður 19 ára í maí er gríðarlega efnilegur markvörður sem er að koma uppúr yngriflokkum KA. Hann lék sinn fyrsta keppnisleik með meistaraflokksliði KA sumarið 2023 er KA vann 5-0 sigur á liði ÍBU í Mjólkurbikarnum. Hann lék svo sinn fyrsta leik í Bestudeildinni sama sumar er hann lék allan leikinn og hélt hreinu í 1-0 sigri KA á HK.
Síðasta sumar lék Ívar á láni með Hetti/Huginn í 2. deild. Þar lék hann 24 leiki í deild og bikar og sýndi og sannaði að hann er klár í enn stærra skref í sumar þar sem hann mun leika í næstefstu deild með liði Völsungs.
Ívar er einnig fastamaður í yngrilandsliðum Íslands þar sem hann hefur leikið 15 landsleiki. Hann hefur leikið 4 leiki með U19, 8 með U17, 2 með U16 og einn með U15. Þá hefur hann einnig farið á reynslu til nokkurra liða á Norðurlöndunum, þar á meðal stórliði Hammarby í Svíþjóð.
Það er klárt að Ívar sem er afar metnaðarfullur á framtíðina fyrir sér og er afar jákvætt að hann sé búinn að skrifa undir nýjan samning við KA. Þá verður spennandi að fylgjast með framgöngu hans með Völsung í sumar og ljóst að hann mun fá mikilvæga reynslu þar.