Hrikalega sætur KA sigur á lokasekúndunni

Handbolti
Hrikalega sætur KA sigur á lokasekúndunni
Frábær úrslit á erfiðum útive (mynd: Egill Bjarni)

KA sótti ÍBV heim til Vestmannaeyja í Olísdeild karla í handboltanum í kvöld. KA liðið hefur verið á góðu skriði að undanförnu og mættu strákarnir hvergi bangnir á einn erfiðasta útivöll landsins.

Leikir liðanna hafa verið spenmnuþrungnir og varð engin breyting þar á í kvöld. Jafnt var á flestum tölum í fyrri hálfleik þar sem KA liðið leiddi en ÍBV jafnaði jafn harðan. Endaspretturinn var hinsvegar öflugri hjá heimamönnum sem leiddu því 16-15 er liðin gengu til búningsherbergja sinna.

Dæmið snerist við í þeim síðari þar sem nú var komið að ÍBV að leiða leikinn og okkar að elta. Aldrei munaði þó meira en tveimur mörkum á liðunum og fyrirtaks skemmtun að fylgjast með gangi leiks. Er innan við tíu mínútur lifðu leiks tókst strákunum að jafna metin í 25-25 og í kjölfarið var jafnt á öllum tölum.

Á lokamínútunni tókst ÍBV að jafna metin í 28-28 en enn voru um tuttugu sekúndur eftir af leiknum en KA átti ekki leikhlé. Þrátt fyrir það settu strákarnir upp í ágætissókn, létu ekki klukka sig og Patrekur Stefánsson fékk sénsinn. Patti þrumaði á markið rétt í þann mund sem tíminn kláraðist, inn fór boltinn og gríðarlega sætur 28-29 sigur staðreynd.

Það eru ekki mörg lið sem sækja stig til Eyja og hvað þá sigur og verður að viðurkennast að þetta geta orðið ansi mikilvæg stig þegar deildin klárast í vor. Strákarnir eru staðráðnir í að koma sér í úrslitakeppnina og að sjálfsögðu eins ofarlega og hægt er í deildinni. Nú er liðið ósigrað í síðustu fjórum leikjum og heldur betur svarað fyrir svekkjandi tap gegn Aftureldingu þar áður.

Næsti leikur er heimaleikur strax á fimmtudag er Valsmenn mæta norður og má búast við hörkuleik. Valur tapaði illa fyrir Stjörnunni í kvöld og mæta líklega ansi grimmir til leiks gegn okkur. Þá er strax aftur leikur á sunnudaginn er strákarnir mæta Þórsurum öðru sinni á stuttum tíma í Höllinni.

Jóhann Geir Sævarsson og Árni Bragi Eyjólfsson voru markahæstir í kvöld með 6 mörk hvor, Áki Egilsnes gerði 5 mörk, Jón Heiðar Sigurðsson 4, Patrekur Stefánsson 4, Einar Birgir Stefánsson 2 og þeir Daði Jónsson og Allan Norðberg gerðu sitt markið hvor. Nicholas Satchwell varði 8 skot í markinu þar af eitt vítakast og Svavar Ingi Sigmundsson varði eitt skot.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband