Hrefna sæmd heiðursviðurkenningu ÍBA

Almennt
Hrefna sæmd heiðursviðurkenningu ÍBA
Hrefna á 90 ára afmæli KA

Hrefna Gunnhildur Torfadóttir fyrrum formaður KA var í dag sæmd heiðursviðurkenningu Íþróttabandalags Akureyrar. Óhætt er að fullyrða að Hrefna hafi síðastliðin 40 ár verið áberandi í starfinu hjá KA, hvort sem það var við að selja tópas og aðgöngumiða á leiki í Íþróttaskemmunni eða þvo búninga og selja auglýsingar á þá fyrir handknattleiksdeild þá var Hrefna mætt.

Hrefna hefur setið í stjórnum í fjölda mörg ár fyrir KA. Hún sat í unglingaráði Handknattleiksdeildar, og síðan sem formaður Handknattleiksdeildar. Nú síðast var hún formaður aðalstjórnar félagsins og gegndi því embætti í 8 ár og var aðeins önnur konan til þess að gegna því embætti. Í dag er hún yfir sögunefnd félagsins sem vinnur að því að varðveita sögu KA.

Hrefna hefur ætíð verið til í slaginn fyrir KA og það er ómetanlegt fyrir KA að eiga slíkan liðsmann. Ef að Hrefna hefði verið á tímakaupi hjá KA væri hún moldrík í dag. En eins og hún sjálf orðar alltaf svo skemmtilega, að hún þarf engin laun fyrir að vinna fyrir KA, í gegnum KA hefur hún kynnst sínum bestu vinum og launin eru fólgin í félagsskapnum og að koma að því göfuga starfi sem íþróttafélag sinnir.

Hrefna Gunnhildur Torfadóttir er svo sannarlega vel að þessari viðurkenningu komin og óskum við henni til hamingju.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband