Flýtilyklar
Haukar slógu KA útúr bikarnum
KA tók á móti Haukum í fyrstu umferð Coca-Cola bikarsins í handbolta í kvöld. KA hafði komið mörgum gríðarlega á óvart fyrr í vetur er liðið rótburstaði Hauka í Olís deildinni og var ljóst að gestirnir ætluðu sér að hefna fyrir það.
Leikurinn fór jafnt af stað og var lítið skorað, KA leiddi bæði í 1-0 og 2-1 en þá snerist leikurinn. Gestirnir tóku öll völd á vellinum og gerðu næstu sex mörk leiksins. Mest komust þeir í níu marka forystu í fyrri hálfleik og var mesta spennan úr leiknum því tiltölulega snemma. KA lagaði muninn fyrir hlé og voru hálfleikstölur 10-16.
Ef einhver var að vonast til að KA liðið myndi ná að höggva enn frekar á muninn og gera leik úr þessu þá kom fljótt í ljós að Haukarnir ætluðu ekki að gefa neitt eftir og hitt þá heldur því þeir virtust vera á fullri keyrslu allan leikinn.
Lokatölur voru 23-30 og Haukar fara því sannfærandi áfram í næstu umferð Coca-Cola bikarsins. KA liðið er hinsvegar úr leik og klárt mál að strákarnir þurfa að læra af þessum leik. Okkar lið er einfaldlega þannig að ef menn spila ekki á fullum krafti í 60 mínútur þá á liðið ekki möguleika gegn jafn sterkum andstæðing og Haukar eru.
Sóknarleikurinn var alls ekki nógu beittur og þurftu Hafnfirðingar að manni virtist ekki þurfa að hafa mikið fyrir hlutunum. Varnarleikurinn var skárri en ekki nægilega stöðugur og þá fór Jovan Kukobat í marki KA ekki að klukka bolta fyrr en leikurinn var tapaður.
En sem betur fer var þessi leikur í bikarnum en ekki deildinni því það er alveg klárt mál að strákarnir þurfa að einbeita sér að deildarkeppninni. KA liðið er nýliði í deild þeirra bestu sem fer gríðarlega jöfn af stað og ljóst að við þurfum á öllum þeim stigum sem í boði eru til að tryggja áframhaldandi veru í deildinni.
Mörk KA: Tarik Kasumovic 6 mörk, Jóhann Einarsson 4, Áki Egilsnes 3, Allan Norðberg 3, Andri Snær Stefánsson 2 (1 úr vítakasti), Dagur Gautason 2, Sigþór Gunnar Jónsson 1, Daði Jónsson 1 og Einar Birgir Stefánsson 1 mark.