Flýtilyklar
Háspennusigur KA/Þórs á Selfossi
KA/Þór sótti í kvöld lið Selfoss heim í 15. umferð Olís deildar kvenna. Þetta var þriðja viðureign liðanna í vetur og hafði KA/Þór unnið sannfærandi sigra, það var þó ljóst að heimastúlkur myndu selja sig dýrt í kvöld enda liðið á botni deildarinnar og þurftu nauðsynlega á stigum að halda til að koma sér nær liðunum í kringum sig.
Leikurinn fór frekar rólega af stað hvað varðar markaskorun og var töluverð stöðubarátta í upphafi. En eins og í fyrri leikjum liðanna virtust stelpurnar einfaldlega vera sterkari en lið Selfyssinga og KA/Þór leiddi með 2-4 mörkum út fyrri hálfleikinn.
Staðan í hálfleik var 13-16 og útlitið nokkuð gott, liðið sýndi á köflum góðan leik og vantaði aðeins herslumuninn upp á að stinga hreinlega Selfyssinga af.
Stelpurnar gerðu svo ansi vel í upphafi síðari hálfleiks og komust snemma í 14-20. Heimastúlkur lögðu þó ekki árar í bát enda höfðu þær engu að tapa og minnkuðu aftur muninn niður í þrjú mörk. Í kjölfarið skiptust liðin á að skora og forysta okkar liðs 3-4 mörk.
Selfoss fór að leika með aukamann í sókninni og það gaf þeim aukakraft. Staðan var 22-25 þegar um átta mínútur lifðu leiks en þá skoraði Selfoss þrjú mörk í röð og jöfnuðu í 25-25. Jonni tók eðlilega leikhlé og reyndi að finna lausnir á þessu útspili Selfoss sem hafði komið þeim allhressilega inn í leikinn að nýju.
Gríðarleg spenna var á lokamínútunum og var jafnt í 26-26, 27-27 og 28-28. Ruðningur var svo dæmdur á okkar lið er rétt rúmlega mínúta var eftir af leiknum og Selfoss í kjörstöðu. Sólveig Lára komst hinsvegar inn í sendingu og skaut yfir allan völlinn í autt markið og staðan orðin 28-29. Stelpurnar náðu svo að halda út og gríðarlega sætur sigur staðreynd og í raun sanngjarn enda leiddi liðið nær allan leikinn.
Sigurinn kemur liðinu í 15 stig í deildinni og þar með 8 stigum frá umspilssætinu. Við getum því gleymt einhverri fallbaráttu og munar einungis tveimur stigum á okkar liði og ÍBV sem situr í 4. sætinu sem er síðasta sætið sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni.
Spilamennskan í dag var á köflum góð en eins og reyndar ansi oft í vetur var erfitt að finna stöðugleika og liðið slapp með skrekkinn undir lokin að fá öll stigin eftir að Selfoss fór að leika með aukamann í sókninni. En það ber þó að hrósa liðinu fyrir það að koma sér aftur í gang og ná að klára dæmið.
Katrín Vilhjálmsdóttir gerði 6 mörk í leiknum og ófá mörkin komu úr hraðaupphlaupum. Sömuleiðis voru þær Sólveig Lára Kristjánsdóttir og Martha Hermannsdóttir með 6 mörk en Martha gerði 2 mörk úr vítum. Ásdís Guðmundsdóttir gerði 5 mörk, Anna Þyrí Halldórsdóttir og Ásdís Sigurðardóttir gerðu 2 mörk og þær Aldís Ásta Heimisdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir gerðu 1 mark hvor.
Olgica Andrijasevic varði 14 skot í markinu en hún varði frábærlega fyrri hluta leiks en datt niður í síðari hlutanum sem er að vissu leiti eðlilegt enda fékk heimaliðið opnari færi með aukamanninn í sókninni.
Næsti leikur er útileikur gegn HK í nýliðaslag í Digranesinu á þriðjudaginn. HK er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni en á sama tíma eru mikilvæg stig í húfi fyrir okkar lið ef að stelpurnar ætla að gera alvöru atlögu að sæti í úrslitakeppninni. Það má reikna með hörkuleik og gaman að sjá að Stöð 2 Sport mun sýna leikinn beint.