Hans Viktor skrifar undir hjá KA

Fótbolti

Knattspyrnudeild KA barst í dag ansi góður liðsstyrkur þegar Hans Viktor Guðmundsson skrifaði undir samning út keppnistímabilið 2025. Hans Viktor er 27 ára miðvörður sem gengur til liðs við okkur frá Fjölni þar sem hann hefur leikið allan sinn feril.

Hans hefur leikið 81 leik í efstu deild fyrir Fjölni og skorað í þeim 5 mörk en síðustu þrjú tímabil hefur hann leikið með liðinu í næstefstu deild þar sem hann hefur leikið 73 leiki og skorað 16 mörk. Bikarleikirnir eru 15 og mörkin tvö auk þess sem hann lék 12 leiki með U21 árs landsliði Íslands á sínum tíma.

Hallgrímur Jónasson þjálfari liðsins hafði þetta að segja um Hans Viktor: "Ég er mjög ánægður að fá góðan hafsent á besta aldri í liðið. Þegar við skoðuðum hann þá sáum við að hann tikkaði í mörg box hjá okkur. Hans Viktor er stór og fljótur strákur sem er einnig góður á boltanum. Það er einnig mjög mikilvægt að ég heyrði úr mörgum áttum að hann er topp karakter. Ég hlakka til að vinna með honum og hef fulla trú á að næstu ár verði hans bestu á ferlinum."

Aðalbjörn Hannesson yfirmaður knattspyrnumála tók í sama streng: "Hans Viktor er spennandi leikmaður sem verður gaman að sjá í nýjum gulum búning á næsta ári. Hann hefur haldið tryggð við Fjölni sem er aðdáunarvert en við teljum að KA sé rétti staðurinn fyrir hann að taka næsta skref sem fótboltamaður. Hann var í liði ársins í Lengjudeildinni á Fotbolti.net og er það því skemmtileg áskorun fyrir hann að sýna að hann geti einnig verið með betri miðvörðum Bestu deildarinnar."


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband