Flýtilyklar
Hallgrímur Mar gerði 500 markið!
Sigurmark Hallgríms Mars Steingrímssonar í glæsilegum 2-1 sigri KA á Breiðablik í gær var 500. mark KA í efstu deild. Markið kom á 88. mínútu úr vítaspyrnu og var 43. mark Hallgríms í efstu deild fyrir KA og er hann markahæsti leikmaður KA í deild þeirra bestu.
Gauti Laxdal gerði 100. mark félagsins í 2-1 sigri á FH þann 10. júní 1987 en markið kom á 55. mínútu leiksins og jafnaði þar með metin í 1-1. Tryggvi Þór Gunnarsson tryggði svo sigurinn með marki númer 101 á 71. mínútu.
Árni Hermannsson gerði mark númer 200 í 1-1 jafntefli gegn Víði þann 25. júní 1991 en markið gerði Árni á 85. mínútu og tryggði því jafntefli gegn gestunum úr Garði.
Emil Sigvardsen Lyng gerði loks 300. markið í 2-0 sigri á Fjölni þann 14. maí 2017 en mark hans kom á 58. mínútu eftir að Elfar Árni Aðalsteinsson hafði komið KA yfir á 19. mínútu.
Þá gerði Elfar Árni Aðalsteinsson 400. markið í 4-2 sigri á Fylki í lokaleik sumarsins 2019 þann 28. september en Elfar gerði þrennu í leiknum og kom markið sögufræga á annarri mínútu uppbótartímans. Andri Fannar Stefánsson gerði þriðja mark KA í leiknum.
Það er merkilegt við þessi merkismörk að öll hafa þau komið á heimavelli og hafa fjórir af leikjunum fimm unnist og einn endað með jafntefli.
Eins og fyrr segir hefur Hallgrímur Mar Steingrímsson gert 43 af mörkunum 500 en hann er einnig markahæsti leikmaður KA í sögunni þar sem hann hefur nú gert 85 mörk. Auk þess er hann leikjahæsti leikmaður félagsins með 276 leiki fyrir félagið í deild og bikar.
Næstur kemur Elfar Árni Aðalsteinsson með 36 mörk fyrir KA í efstu deild. Ásgeir Sigurgeirsson er þriðji með 26 mörk og þá er Nökkvi Þeyr Þórisson með 23 mörk en 17 mörk hans í sumar er félagsmet á einu sumri í deild þeirra bestu.
Þorvaldur Örlygsson er fimmti í röðinni með 22 mörk og þá eru þeir Hreinn Hringsson og Anthony Karl Gregory jafnir með 14 mörk. Næstur er Ormarr Örlygsson með 13 mörk og Gunnar Gíslason og þá gerðu þeir Ásbjörn Björnsson, Gunnar Blöndal og Árni Hermannsson allir 10 mörk hver í efstu deild fyrir KA.