Halldór Sigurðsson (Donni) tekur við Þór/KA

Almennt
Halldór Sigurðsson (Donni) tekur við Þór/KA
Donni ásamt leikmönnum Þór/KA.

Þór/KA og Halldór Jón Sigurðsson (Donni) hafa gert með sér samkomulag um að Donni taki að sér þjálfun meistara- og 2. flokks Þór/KA og gildir samningurinn til þriggja ára.

Donni er okkur Akureyringum að góðu einu kunnur en hann þjálfaði karlalið Þórs síðustu tvö tímabil en lét af störfum eftir síðasta tímabil.

Áður hafði Donni verið aðstoðarþjálfari hjá m.fl. Vals og þar áður þjálfaði hann lið Tindastóls og kom liðiðnu upp í 1. deild haustið 2011. Hann tók svo við Þór haustið 2014.

Donni hefur UEFA A þjálfaragráðu frá KSÍ og er menntaður íþrótta - og heilsufræðingur, BSc frá Háskóla Íslands.

Donni tekur við af Jóhanni Kristni Gunnarssyni sem stýrði Þór/KA síðustu fimm tímabil með afbragðs árangri en hann gerði liðið m.a. að Íslandsmeisturum sumarið 2012, Meistarar meistaranna 2013 og fór með liðið í bikarúrslit 2013. Þá gerði Jóhann 2. flokk kvenna að bikarmeisturum 2015 og Íslandsmeisturum 2016.

,,Markmið okkar hjá ÞórKA er að bjóða okkar leikmönnum alltaf uppá topp þjálfun.  Ráðning Donna er því rökrétt framhald af því sem við höfum verið að gera undanfarin ár. Flottur ungur þjálfari  með mikla og góða reynslu. Við erum gríðarlega ánægð með að fá Donna til liðs við okkur, væntingar eru miklar til hans og liðsins í framtíðinni. Það er strax kominn pressa á kappann“ sagði Nói Björnsson í stuttu spjalli við heimasíðu Þórs.

Í kvöld mun Þórtv birta viðtal við Donna sem tekið var eftir  undirritun samningsins í dag.

Um leið og Donni er boðinn velkomin til starfa og honum óskað góðs gengis vill Þór/KA nota tækifærið og þakka Jóhanni fyrir vel unnin störf og velfarnaðar í komandi verkefnum. Einnig er Siguróla Kristjánssyni (Mola) færðar bestu þakkir fyrir hans framlag til liðsins til fjölda ára. 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband