Guðmundur Steinn til liðs við KA

Fótbolti
Guðmundur Steinn til liðs við KA
Við bjóðum Guðmund Stein velkominn norður!

KA fékk í dag góðan liðsstyrk fyrir komandi átök í Pepsi Max deildinni í sumar þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson skrifaði undir samning við liðið. Samningurinn gildir út þetta sumar og erum við gríðarlega ánægð með að fá þennan öfluga leikmann norður.

Guðmundur sem er hávaxinn framherji gengur til liðs við KA frá RW Koblenz í Þýskalandi en hann verður 31 árs síðar í mánuðinum. Hann hóf feril sinn með Val og lék með liðinu frá 2007-2010 en auk Vals hefur hann leikið með HK, Víkingi Ólafsvík, Fram, ÍBV og Stjörnunni hér á landi. Þá lék hann eitt ár með norska liðinu Notodden.

Sumarið 2017 skoraði Guðmundur 8 mörk í efstu deild með Víkingi Ólafsvík og árið eftir gerði hann 7 mörk með Stjörnunni. Alls hefur hann leikið 200 deildar- og bikarleiki á Íslandi og skorað í þeim 56 mörk.

Það er ljóst að koma Guðmundar mun styrkja sóknarlínu okkar liðs en fyrsti leikur sumarsins er á sunnudaginn þegar strákarnir sækja lið ÍA heim. Við bjóðum Guðmund velkominn í KA og hlökkum til að sjá hann í gula búningnum í sumar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband