Flýtilyklar
Goðsagnir handboltans, Patrekur og Ekill ríða á vaðið
Handknattleiksdeild KA er farin af stað með ansi skemmtilega nýjung þar sem helstu leikmenn KA í gegnum tíðina eru hylltir. Á leik KA og Fram í Olís deild karla á sunnudaginn var fyrsti leikmaðurinn vígður inn í goðsagnarhöllina og var það enginn annar en Patrekur Jóhannesson. Á myndinni má sjá strigann sem hengdur var upp í KA-Heimilinu af því tilefni.
Framtakið virkar þannig að fyrirtæki geta haft samband við deildina og keypt goðsögn úr handboltastarfinu og fá þar með merki sitt á strigann með myndinni af leikmanninum auk texta yfir hans helstu afrek með KA.
Ekill Ökuskóli tryggði sér Patrek Jóhannesson en hann varð tvívegis Bikarmeistari með KA sem og einu sinni Deildarmeistari. Árið 1995 var hann valinn besti leikmaður Íslandsmótsins auk þess sem hann var markahæsti leikmaður Íslandsmótsins.
Á næstu vikum munum við bæta fleiri goðsögnum við en hafir þú eða þitt fyrirtæki áhuga á að taka þátt í þessu skemmtilega framtaki skaltu endilega hafa samband í netfangið agust@ka.is. Þetta er kjörin auglýsing enda strigarnir ansi sýnilegir.