Glæsisumar batt enda á 12 ára bið KA

Fótbolti
Glæsisumar batt enda á 12 ára bið KA
(mynd: Þórir Tryggva)

KA féll úr efstu deild í knattspyrnu sumarið 2004 við tók löng barátta þar sem félagið barðist fyrir því að vinna sér aftur sæti meðal þeirra bestu. Tarkmarkinu var loksins náð sumarið 2016 eftir tólf ára langa bið í næstefstu deild.

KA liðið hafði misst af sæti í efstu deild sumarið 2015 eftir að hafa komið sér í ágæta stöðu á lokasprettinum. Frábær árangur liðsins í bikarkeppninni þar sem liðið fór í undanúrslit en tapaði í vítakeppni hafði líklega mikið að segja um sveiflótt gengi liðsins framan af sumri. Vonbrigðin voru vissulega mikil en það varð snemma ljóst að sumarið 2016 skyldi ætlunarverkið að koma KA í deild þeirra bestu takast.

Srdjan Tufegdzic eða Túfa hafði gert flotta hluti sem aðalþjálfari liðsins á síðari hluta tímabilsins 2015 og var hann í kjölfarið ráðinn til næstu tveggja ára. Ævar Ingi Jóhannesson yfirgaf liðið og gekk til liðs við Stjörnuna en í hans stað sneru þeir Almarr Ormarsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson aftur til liðs við KA auk komu Ásgeirs Sigurgeirssonar á láni frá Stabæk. Þá vöktu félagsskipti Guðmanns Þórissonar til liðsins frá Íslandsmeisturum FH mikla athygli og var liðinu spáð efsta sæti deildarinnar af flestum spámönnum.


Markasyrpa KA frá sumrinu eftirminnilega árið 2016

Þrátt fyrir allt umtalið og pressuna hófst sumarið á frábæran hátt. KA lagði Fram 3-0 á gervigrasvellinum við KA-Heimilið en eftir jafnræði í 60 mínútur, þar sem Framarar voru heldur hættulegri upp við markið tóku KA-menn leikinn í sínar hendur og skoruðu þrisvar á 13 mínútna kafla. Elfar Árni Aðalsteinsson og Almarr Ormarsson lögðu þar upp mörkin hvor fyrir annan.

Í bikarnum hóf liðið keppni á heimavelli gegn Tindastól. Eftir tíðindalítinn leik voru það gestirnir sem náðu forystunni á 64. mínútu en Orri Gústafsson jafnaði metin innan við mínútu síðar. Þar við sat og því þurfti að framlengja leikinn. Almarr Ormarsson skoraði sigurmarkið í síðari hálfleik hennar og KA fór þar með áfram í næstu umferð bikarkeppninnar.

En liðinu var heldur betur kippt niður á jörðina í næsta leik er liðið sótti Hauka heim. Haukar komu gróðarlega á óvart og skelltu KA liðinu 4-1 þar sem öll mörkin komu á 15 mínútna kafla um miðjan síðari hálfleikinn. Það var því pressa í næsta leik er Huginn Seyðisfirði mætti norður. KA þurfti að hafa talsvert fyrir sigrinum en Elfar Árni Aðalsteinsson og Juraj Grizelj lögðu upp hvor fyrir annan áður en varamaðurinn Friðjón Gunnlaugsson svaraði fyrir Huginn. 2-1 sigur KA því staðreynd.

En KA féll úr bikarkeppninni með 1-0 tapi í Grindavík. Björn Berg Bryde gerði eina mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks og ljóst að KA myndi ekki endurtaka bikarævintýri sitt frá árinu áður. Ásgeir Sigurgeirsson skoraði hinsvegar sigurmark KA gegn Leikni Fáskrúðsfirði er liðin mættust í höllinni á Reyðarfirði þá nýkominn sem varamaður. KA liðið mun sterkari aðilinn en þurfti að sætta sig við aðeins 1-0 sigur og þriðji sigur sumarsins kominn.

Það stefndi hinsvegar allt í annað tap hjá KA er Keflvíkingar mættu norður í fyrsta leik sumarsins á Akureyrarvelli. Gestirnir tóku forystuna seint í fyrri hálfleik og gekk KA liðinu ansi illa að skapa sér færi. Pétur Heiðar Kristjánsson kom inná skömmu fyrir leikslok, hleypti miklu lífi í sóknarleik liðsins og krækti í vítaspyrnu á síðustu mínútu venjulegs leiktíma. Elfar Árni tryggði dýrmætt stig með marki af vítapunktinum.


Sigur KA liðsins var mjög sannfærandi er upp var staðið

KA fór svo á topp deildarinnar með góðum útisigri á Leikni Reykjavík, 0-2. Ásgeir Sigurgeirsson komst inn í sendingu til baka hjá Leiknismönnum og afgreiddi boltann laglega framhjá Kristjáni Pétri í markinu. Varamaðurinn Halldór Hermann Jónsson innsiglaði svo sigurinn með marki eftir langt innkast. Liðið hélt sínu striki og efsta sætinu með nokkuð öruggum 2-0 sigri á HK þar sem Guðmann Þórisson og Ásgeir Sigurgeirsson voru í aðalhlutverkum auk þess að skora mörkin.

Áfram var KA á sigurbraut er liðið sótti Selfyssinga heim, Ásgeir hélt áfram að skora og Hallgrímur Mar tvöfaldaði forystuna undir lok fyrri hálfleiks. Eftir fyrstu 8 umferðirnar var mikil spenna á toppi deildarinnar en KA og Þór voru bæði með 19 stig og þar á eftir var mikill pakki eins og oft vill verða í fyrstu deildinni.

Liðið náði hinsvegar þriggja stiga forskoti í næstu umferð með 2-0 sigri á Fjarðabyggð á Akureyrarvelli. Ásgeir Sigurgeirsson skoraði í fjórða leiknum í röð og í uppbótartíma bætti Elfar Árni Aðalsteinsson við marki úr vítaspyrnu eftir að Almarr Ormarsson hafði verið felldur innan teigs. Þórsarar töpuðu hinsvegar á sama tíma 5-0 í Grindavík en KA sótti einmitt Grindvíkinga heim í næstu umferð.

Þar komst liðið í góða stöðu í fyrri hálfleik en Juraj Grizelj skoraði með fallegu langskoti gegn sínum gömlu félögum áður en Hallgrímur Mar Steingrímsson tvöfaldaði forystuna eftir skelfileg mistök heimamanna. En ekki tókst KA-liðinu að halda forystunni og þurfti að sætta sig við 2-2 jafntefli eftir frábæran síðari hálfleik hjá Jósef Kristni Jósefssyni fyrirliða Grindvíkinga.

Því næst var komið að sjálfum nágrannaslagnum við Þór og var hans beðið með mikilli eftirvæntingu. Bæði lið höfðu farið vel af stað og voru í efstu tveimur sætum deildarinnar. Leikurinn var kaflaskiptur og var lítið um opin færi en snemma í síðari hálfleik skoraði Elfar Árni Aðalsteinsson með skalla eftir sendingu Hallgríms Mar Steingrímssonar og reyndist það sigurmark KA.


Stuðningsmenn KA gátu alls fagnað 17 sigurleikjum yfir sumarið

Rúmlega 1.600 áhorfendur voru á leiknum og gátu stuðningsmenn KA fagnað sigrinum vel og lengi en liðið var þar með komið með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar og sumarið hálfnað. Túfa þjálfari liðsins var svo valinn besti þjálfari deildarinnar í fyrri hlutanum.

Aftur vannst góður sigur á Fram, nú í Laugardalnum. Juraj Grizelj lagði upp tvö mörk í fyrri hálfleik fyrir þá Guðmann og Almarr og var staðan 0-2 í hléinu. Framarar minnkuðu muninn með marki Indriða Áka Þorlákssonar úr vítaspyrnu en Elfar Árni innsiglaði sigurinn með marki úr vítaspyrnu sem hann krækti í sjálfur á 83. mínútu leiksins.

En rétt eins og í fyrri umferðinni voru það Haukar sem komu á óvart gegn okkar liði. KA sem hafði ekki tapað í tíu leikjum frá tapinu á Ásvöllum þurfti að sætta sig við tap gegn Haukum. Elton Livramento skoraði sigurmarkið eftir um kortérs leik í síðari hálfleik. Davíð Rúnar Bjarnason komst næst því að jafna metin undir lok leiks en Terrence Dietrich í marki Hauka varði glæsilega og óvænt tap staðreynd.

Aftur tapaði KA liðið óvænt er liðið sótti Huginn heim á Seyðisfjörð. Leikurinn var heldur rislítill en Elfar Árni Aðalsteinsson fékk úrvalstækifæri á að koma KA yfir en vítaspyrna hans fór yfir markið. Stefán Ómar Magnússon tryggði svo liði Hugins sigurinn með marki í uppbótartíma en Srdjan Rajkovic markvörður KA hafði skömmu áður fengið höfuðhögg og þurfti að yfirgefa völlinn.


Glæsimark Aleksander Trninic gegn Leikni Fáskrúðsfirði var kosið besta mark sumarsins hjá KA

KA rétti sig loks við eftir töpin tvö og hélt toppsætinu með því að vinna Leikni Fáskrúðsfirði 4-0 þar sem Aleksandar Trninic skoraði tvívegis. Seinna markið gerði hann með stórglæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu sem mun seint gleymast. Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði eitt í millitíðinni en Ólafur Aron Pétursson kláraði dæmið með laglegu skoti utan teigs. Hinn ungi og efnilegi markvörður Aron Dagur Birnuson lék allan leikinn fyrir KA og hélt því hreinu í frumraun sinni.

Srdjan Rajkovic sneri aftur í markið í næsta leik sem var útileikur gegn Keflavík. Keflvíkingar voru sjö stigum á eftir KA í þriðja sætinu og þeir þjörmuðu að okkar liði enda þurftu þeir nauðsynlega á sigri að halda en tókst ekki að skora og markalaust jafntefli niðurstaðan. Grindvíkingar ýttu KA úr toppsæti deildarinnar með 0-3 sigri á Leikni Reykjavík. En jafnteflið var KA liðinu mikilvægt og var sjö stigum frá 3. sæti deildarinnar er sex umferðir voru óleiknar.

Því næst vannst frábær 3-1 sigur á Leikni Reykjavík á Akureyrarvelli en staðan var orðin 3-0 eftir 25 mínútur þar sem besti maður vallarins, Hallgrímur Mar Steingrímsson, skoraði tvívegis og Juraj Grizelj skoraði eitt. KA komst aftur á toppinn og var einum leik frá því að fara upp með því að vinna HK 2-3 í Kórnum. HK var yfir í hálfleik en KA svaraði því með þremur mörkum eftir hlé þar sem Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði tvívegis með skalla eftir fyrirgjafir frá Juraj Grizelj. Aleksander Trninic skoraði einnig og KA í lykilstöðu.

Það var margt um manninn á Akureyrarvelli er KA tók á móti Selfoss í 19. umferð, með sigri myndi liðið tryggja sér veru í efstu deild og var mikil spenna í loftinu. Ásgeir Sigurgeirsson skoraði markið sem réð úrslitum með laglegu skoti utarlega úr vítateignum eftir sendingu Hallgríms Mar Steingrímssonar á 79. mínútu. Á sama tíma tryggðu Grindvíkingar sér einnig sæti í efstu deild með sigri á Fjarðabyggð.


12 ára veru í næstefstu deild loksins lokið!

Enn börðust þó liðin um sigur í deildinni og KA liðið sótti 1-4 sigur á Eskifirði er liðið mætti Fjarðabyggð. Heimamenn komust reyndar yfir og leiddu 1-0 í hálfleiknum en KA liðið hvíldi flesta lykilmenn sína. Allt annað var að sjá til okkar liðs í þeim síðari en Hallgrímur Mar Steingrímsson kom inná sem varamaður og lagði upp tvö mörk en mörk KA gerðu þeir HAlldór Hermann, Archie Nkumu, Ásgeir og Elfar Árni.

KA tryggði sér svo meistaratitil 1. deildar með því að sigra Grindvíkinga 2-1 í uppgjöri toppliðanna á Akureyrarvelli. Andri Rúnar Bjarnason kom Grindavík yfir eftir hornspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði með skalla eftir sendingu Hrannars Björns Steingrímssonar og þremur mínútum síðar krækti Hallgrímur Mar Steingrímsson í vítaspyrnu sem hann skoraði úr sjálfur. Mikil sigurgleði braust út í leikslok og lyftu strákarnir bikarnum fyrir framan fjölmarga gula og glaða KA-menn í stúkunni.


Sumrinu var lokað með frábærum 0-3 sigri á Þórsvelli

Enn var þó einn leikur eftir og mikilvægur var hann en þá sóttu strákarnir Þórsara heim á Þórsvöll. Ekki var að sjá að strákarnir væru orðnir saddir því Almarr Ormarsson kom KA yfir á 4. mínútu og Juraj Grizelj tvöfaldaði forystuna eftir einungis ellefu mínútna leik. Sigur KA liðsins var aldrei í hættu og Bjarki Þór Viðarsson innsiglaði sætan 0-3 sigur með marki skömmu fyrir leikslok.

Stóra markmiðinu var því loksins náð, eftir 12 ára veru í næstefstu deild stóð KA uppi sem yfirburðarsigurvegari 1. deildar en liðið endaði með 51 stig, níu stigum meira en Grindavík í öðru sætinu og alls sextán stigum meira en Keflavík í þriðja sætinu. Þessi sannfærandi sigur liðsins gaf tóninn og öllum var ljóst á bæði spilamennsku liðsins sem og umgjörðinni í kringum það að KA ætlaði sér að staldra hressilega við í deild þeirra bestu.

Sú nýjung varð á þetta sumarið að KA hóf sínar eigin sjónvarpsútsendingar með stofnun KA-TV. Liðið lék alls 24 leiki yfir sumarið og fyrir tilstuðlan KA-TV voru þeir allir sýndir beint og því til ansi góð heimild um þetta skemmtilega sumar í sögu félagsins.

Á fjölsóttu lokahófi knattspyrnudeildar voru Guðmann Þórisson og Srdjan Rajkovic jafnir í kosningu um besta leikmann sumarsins. Efnilegasti leikmaðurinn var valinn Ásgeir Sigurgeirsson og Davíð Rúnar Bjarnason fyrirliði hlaut Móðann. Þá átti KA alls 6 leikmenn í úrvalsliði Fótbolta.net en þetta voru Srdjan Rajkovic, Hrannar Björn Steingrímsson, Guðmann Þórisson, Ásgeir Sigurgeirsson, Hallgrímur Mar Steingrímsson og Elfar Árni Aðalsteinsson. Þá voru þeir Aleksandar Trninic og Almarr Ormarsson á bekknum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband