Fullt hús stiga hjá Þór/KA

Fótbolti
Fullt hús stiga hjá Þór/KA
Sannfærandi sigur í dag (mynd: Sævar Geir)

Þór/KA sótti FH heim í Skessunni í dag en leikurinn var liður í 2. umferð riðlakeppni Lengjubikarsins. Þór/KA vann góðan 5-2 sigur á Tindastól í fyrstu umferð en FH sem féll úr Pepsi Max deildinni á síðustu leiktíð hafði tapað gegn Fylki.

Það tók ekki langan tíma fyrir stelpurnar að taka öll völd á vellinum og María Catharina Ólafsdóttir kom Þór/KA á bragðið strax á 6. mínútu áður en Karen María Sigurgeirsdóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir bættu við mörkum og staðan orðin 0-3 eftir rétt rúmlega kortérsleik.

Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleiknum en leikurinn datt svolítið niður eftir þriðja markið og kannski skiljanlega enda úrslitin í raun ráðin strax. María Catharina gerði svo sitt annað mark í leiknum á 64. mínútu og stefndi því í stórsigur Þórs/KA.

En lið FH sýndi karakter og lagaði stöðuna á 74. mínútu er Esther Rós Arnarsdóttir skoraði úr vítaspyrnu og aftur á 81. mínútu er Arna Sigurðardóttir gerði lokamark leiksins og 2-4 sigur okkar liðs staðreynd.

Stelpurnar eru því með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína og eru á toppi riðils síns en Breiðablik og Fylkir gerðu jafntefli í dag og koma þau næst á eftir með 4 stig hvort. Næsti leikur er einmitt gegn Breiðablik og fer sá leikur fram í Boganum næsta sunnudag.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband