Flýtilyklar
Frábær sigur KA/Þórs á Fram (myndir)
Það var stórleikur í Olísdeild kvenna í KA-Heimilinu í gær er KA/Þór tók á móti Fram. Liðin sem mættust tvívegis í úrslitaleik á síðasta ári eru í harðri toppbaráttu og mátti reikna með spennuþrungnum baráttuleik.
Leikurinn fór jafnt af stað og allt útlit fyrir að leikurinn myndi standa undir væntingum. Gestirnir náðu tveggja marka forystu er 10 mínútur voru búnar en þá hrukku stelpurnar okkar í gang og gerðu næstu fjögur mörk leiksins.
Varnarleikurinn var stórkostlegur og öflugt sóknarlið Fram átti í stökustu vandræðum með að finna glufur, það voru helst einstaklingsframtök sem héldu gestunum inn í leiknum. Það virtist því aðeins tímaspursmál hvenær stelpurnar okkar næðu að bæta við forskotið og það gerðist er rúmar sex mínútur lifðu af fyrri hálfleik. Staðan var 10-9 og næstu fjögur mörk voru okkar og staðan því 14-9 er liðin gengu til hálfleiks.
Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á leiknum og býður til myndaveislu frá leiknum. Við kunnum honum bestu þakkir fyrir.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum
Hléið stöðvaði svo sannarlega ekki frábæran leik stelpnanna og þær héldu áfram að hamra járnið enda járnið sjóðandi heitt. Eftir rétt rúmar 10 mínútur af síðari hálfleik var munurinn orðinn átta mörk, 21-13, og útlitið heldur betur gott.
Fram er með frábærlega mannað lið og þeim tókst að hleypa smá spennu í leikinn eftir leikhlé. Gestunum tókst að minnka muninn niður í þrjú mörk er fimm mínútur voru eftir en komust ekki lengra og sigur KA/Þórs í raun aldrei í alvöru hættu. Að lokum vannst 27-23 sigur og afar sanngjarn sigur staðreynd.
Frábær tvö stig í hús hjá stelpunum okkar sem tylltu sér á topp deildarinnar þar sem þær sitja ásamt liði Vals með 10 stig nú þegar deildin er hálfnuð. Fram og Stjarnan eiga eftir að mætast og liðið sem vinnur þann leik verður einnig með 10 stig eftir fyrri umferðina. Það stefnir því allt í svakalega toppbaráttu og frábært að sjá okkar lið þar á meðal.
Varnarleikurinn sem stelpurnar buðu uppá í gær var stórkostlegur og var hrein unun að fylgjast með baráttunni og aganum sem þær sýndu trekk í trekk. Matea Lonac hóf leikinn í markinu en hún hefur átt við meiðsli að undanförnu og fann sig ekki. Sunna Guðrún Pétursdóttir kom því í rammann og hún tók nokkra mikilvæga bolta.
Rut Jónsdóttir fór fyrir sóknarleik okkar liðs og gerði alls 7 mörk auk þess sem hún átti þó nokkrar stoðsendingar. Hún varð fyrir fólskulegu broti á lokamínútunni þegar úrslitin voru ráðin og vonandi að hún nái sér af þeim meiðslum sem fyrst. Sólveig Lára Kristjánsdóttir kom frábær inn í vinstri skyttuna og gerði 5 mörk en hún missti af útileiknum gegn Val á dögunum.
Rakel Sara Elvarsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir gerðu báðar 4 mörk, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2 mörk og þær Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir og Anna Þyrí Halldórsdóttir gerðu sitt markið hvor.
Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn ÍBV á laugardaginn en Eyjakonur geta með sigri á Haukum komið sér í 9 stig eftir fyrri umferðina og því enn einn fjögurra stiga leikurinn framundan.