Frábær baráttusigur á ÍBV (myndaveisla)

Handbolti
Frábær baráttusigur á ÍBV (myndaveisla)
Frábær sigur staðreynd! (mynd: Egill Bjarni)

KA/Þór tók á móti ÍBV í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna í KA-Heimilinu í gær en liðin börðust í svakalegu einvígi í undanúrslitum úrslitakeppninnar á síðustu leiktíð. KA/Þór fór þar með sigur af hólmi eftir framlengdan oddaleik og ljóst að um hörkuleik yrði að ræða.

Rut Jónsdóttir var fjarri góðu gamni vegna meiðsla sem hún hlaut í síðasta leik auk þess sem að Hulda Bryndís Tryggvadóttir gat lítið beitt sér. Það voru þó einnig skörð í liði gestanna og þurftu því aðrir leikmenn að stíga upp.

KA/Þór hóf leikinn af krafti og komst snemma í 3-0 áður en ÍBV sneri dæminu við og komst í 3-4. Eftir það höfðu gestirnir frumkvæðið en munurinn var þó aldrei meiri en tvö mörk. Öflugur lokasprettur okkar liðs tryggði jafna stöðu í hléinu, 11-11.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Sama spenna einkenndi síðari hálfleikinn en nú var komið að okkar liði að stýra ferðinni. Þegar um sex mínútur lifðu leiks var staðan orðin 23-20 fyrir KA/Þór eftir að stelpurnar höfðu gert þrjú mörk í röð og útlitið gott. En ÍBV gefst aldrei upp og skyndilega var staðan orðin jöfn á ný, 23-23. En stelpurnar okkar eru orðnar ansi vanar því að klára sitt þegar mest á reynir og eftir spennuþrungnar lokamínútur tókst að knýja fram 26-24 sigur og gríðarlega mikilvæg 2 stig í hús.

Martha Hermannsdóttir fór fyrir okkar liði og gerði 9 mörk auk þess sem hún stóð fyrir sínu í vörninni. Aldís Ásta Heimisdóttir kom næst með 4 mörk og þær Sólveig Lára Kristjánsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir gerðu báðar 3 mörk.

Sofie Søberg Larsen sem gekk til liðs við KA/Þór á dögunum kom inn af krafti og gerði 2 mörk rétt eins og þær Unnur Ómarsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir. Þá gerði Anna Þyrí Halldórsdóttir 1 mark en hún átti einnig 7 löglegar stöðvanir í vörninni sem var það mesta í leiknum. Matea Lonac varði 11 skot í markinu og var með 33% markvörslu.

Virkilega sterkur sigur að baki og frábært að sjá stelpurnar klára leikinn en ÍBV er með einkar öflugt lið og stigin tvö geta reynst ansi dýrkeypt þegar upp verður staðið í lok tímabils.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband