Flýtilyklar
Flottur sigur KA/Ţór á HK í dag
Varnarleikurinn var í fyrirrúmi hjá báðum liðum í upphafi leiks og fyrsta markið kom ekki fyrr en eftir fimm mínútna leik og það gerðu heimamenn. Eftir frekar jafnan leik framan af fyrri hálfleik fór KA/Þór hægt og bítandi að síga framúr þegar leið á hálfleikinn og hafði fimm marka forystu í leikhlé, 14:9.
KA/Þór hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik og náði mest níu marka forystu um miðjan hálfleikinn, 22:13, og allt leit út fyrir öruggan sigur heimamanna. HK neitaði hins vegar að gefast upp og náði að minnka muninn niður í þrjú mörk, 23:26, þegar þrjár mínútur lifðu leiks og hleyptu smá spennu í leikinn. Heimamenn héldu hins vegar dampi og innbyrtu fjögurra marka sigur að lokum.
Martha Hermannsdóttir var markahæst með 7 mörk en Arna Valgerður Erlingsdóttir og Unnur Ómarsdóttir skoruðu 6 mörk hvor. Ásdís Sigurðardóttir skoraði 4, Inga Dís Sigurðardóttir 2 en þær Katrín Vilhjálmsdóttir og Kolbrún Einarsdóttir 1 mark hvor. Í marki KA/Þórs átti Selma Sigurðardóttir mjög góðan dag og varði 15 skot. Hjá HK var Líney Rut Guðmundsdóttir og Lilja Pálsdóttir markahæstar með 4 mörk hvor. Þá varði Ólöf Ragnarsdóttir 11 skot í marki HK.
KA/Þór hefur nú unnið tvo leiki í röð í deildinni og er komið með sjö stig í 7. sæti deildarinnar, en HK er með fimm stig í 8. sæti deildarinnar.
Martha var öflug í dag að vanda