Elfar Árni framlengir út 2024

Fótbolti
Elfar Árni framlengir út 2024
Elfar Árni goes on!

Elfar Árni Aðalsteinsson skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn félaginu út sumarið 2024. Þetta eru frábærar fréttir enda er Elfar Árni algjör lykilmaður í liði KA og verið það síðan hann gekk í raðir okkar fyrir sumarið 2015.

Elfar Árni sem er 32 ára gamall hefur nú leikið 163 leiki í deild og bikar fyrir KA og gert í þeim 66 mörk en hann skoraði sitt 50 mark í efstu deild í 0-3 útisigri KA á Stjörnunni í gær en 38 af þeim hefur hann gert fyrir KA. Áður en hann gekk í raðir KA lék hann með Breiðablik og uppeldisfélagi sínu Völsung á Húsavík.

Sumarið 2019 hlaut Elfar Árni bronsskóinn í efstu deild þegar hann gerði 13 mörk í 20 leikjum og var hann valinn besti leikmaður KA það tímabilið af leikmönnum og stjórn KA sem og hjá Vinum Móða og Schiöthurum.

Við erum í skýjunum með að halda þessum öfluga kappa áfram innan okkar raða en ekki nóg með að vera gríðarlega öflugur sóknarmaður er barátta og áræðni hans til fyrirmyndar og verður svo sannarlega spennandi að fylgjast áfram með framgöngu Elfars í gula og bláa búningnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband