Flýtilyklar
Dramatískt jafntefli gegn Blikum
KA og Breiðablik gerðu dramatískt jafntefli í dag í 4. umferð Pepsi Max deildar karla. KA komst yfir í uppbótartíma en gestirnir jöfnuðu enn síðar í uppbótartímanum. Æsispennandi lokamínútur.
KA 2 – 2 Breiðablik
0 - 1 Thomas Mikkelsen (’45)
1 - 1 Brynjar Ingi Bjarnason (’67) Stoðsending: Hallgrímur Mar
2 - 1 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (’90+1) Víti
2 - 2 Thomas Mikkelsen (’90+2) Víti
Áhorfendatölur:
815 áhorfendur
Lið KA:
Aron Dagur, Hrannar Björn, Brynjar Ingi, Rodrigo, Mikkel Qvist, Ívar Örn, Almarr Ormars (fyrirliði), Bjarni Aðalsteins, Hallgrímur Mar, Ásgeir og Guðmundur Steinn.
Bekkur:
Kristijan Jajalo, Andri Fannar, Ýmir Már, Gunnar Örvar, Steinþór Freyr, Adam Örn og Sveinn Margeir
Skiptingar:
Steinþór Freyr inn – Ásgeir út (’70)
Andri Fannar inn – Brynjar Ingi út (’83)
Sveinn Margeir inn – Hallgrímur Mar út (’83)
KA mætti í dag Breiðablik á Greifavellinum á Akureyri í 4. umferð Pepsi Max deildar karla. KA var að leika sinn þriðja leik á tímabilinu en leik Stjörnunar og KA var frestað í síðustu umferð sökum Covid smits í herbúðum Stjörnunar.
Óli Stefán gerði tvær breytingar á liðinu frá síðasta deildarleik gegn Víkingi R. Hallgrímur Jónasson og Nökkvi Þeyr Þórisson eru báðir alvarlega meiddir og munar um minna fyrir KA liðið. Inn í liðið í dag komu þeir Rodrigo Gomes Mateo og Guðmundur Steinn Hafsteinsson en voru þeir báðir að leika sinn fyrsta deildarleik fyrir KA.
Leikurinn í dag hófst á rólegu nótunum og gerðist lítið markvert fyrsta stundarfjórðung leiksins. Blikar léku undan eilitlum vindi í fyrri hálfleik.
KA liðið lék nokkuð vel framan af hálfleik og var líklegra liðið framan af. En þegar að líða tók á hálfleikinn voru gestirnir í Blikum mun hættulegri. Á síðustu mínútu venjulegs leiktíma átti Brynjólfur Andersen laglegan sprett og kom að lokum sendingu inn í teig sem varamaðurinn Kwame Quee skaut að marki og Mikkel Qvist gerði vel að bjarga á línu. En Thomas Mikkelsen var fljótur að átta sig og steig út Aron Dag sem reyndi að ná til knattarins og kláraði Thomas færið af öryggi og gestirnir fóru því með 0-1 forystu inn í hálfleikinn.
KA hóf seinni hálfeikinn vel og átti Hallgrímur Mar fínt skot að marki rétt fyrir utan teig sem Anton Ari varði í marki Blika eftir aðeins nokkra mínútna leik. Eftir það sóttu gestirnir í Blikum heldur betur í sig veðrið og hreinlega óðu í færum. En vörn KA varðist vel og bjargaði meðal annars Brynjar Ingi lystilega á marklínu þegar að Brynjólfur Andersen komst nálægt því að skora.
En á 67. mínútu fengu KA menn hornspyrnu. Hana tók Hallgrímur Mar og var hún hnitmiðuð því boltinn rataði á Brynjar Inga sem var einn og óvaldaður og þrumaði hann boltanum á lofti í mark Blika og jafnaði metin fyrir KA. Markið kom töluvert gegn gangi leiksins.
Á 82. mínútu átti Thomas Mikkelsen góða sendingu á Höskuld sem var kominn í gott færi í teignum og átti hann hörku skot að marki sem Aron Dagur gerði frábærlega að verja.
Gestirnir sóttu ákaft síðustu mínútur leiksins en KA var alltaf líklegt í föstum leikatriðum. En það var einmitt upp úr einu slíku sem KA fékk dæmda vítaspyrnu. Þá var Rodri togaður niður í teignum af Róbert Orra. Á punktinn steig Guðmundur Steinn og sendi hann Anton Ara í vitlaust horn virtist vera tryggja stigin þrjú fyrir KA en annað kom á daginn.
Aðeins örfáum andartökum seinna rann Hrannar Björn á vellinum og fékk boltann í höndina og vítaspyrna dæmd fyrir Blika. Thomas Mikkelsen helsta skytta Blika steig upp og skoraði af öryggi en Aron Dagur fór í vitlaust horn. 2-2 jafntefli niðurstaðan og KA liðið grátlega nálægt því að hirða öll þrjú.
KA liðið lék vel á köflum gegn öflugu Blika liði sem eru gríðarlega sterkir fram á við. Það eru margir jákvæðir punktar sem liðið getur tekið út úr þessari framistöðu og vonandi liðið taki það með sér í næstu leiki.
KA-maður leiksins: Brynjar Ingi Bjarnason (Var flottur á boltann í vörninni og lokaði vel á sóknarmenn Blika. Skoraði laglegt mark sem kom KA aftur inn í leikinn.)
Næsti leikur KA er á fimmtudaginn þegar að við leggjum land undir fót og förum í Árbæinn og mætum Atla Svein Þórarinssyni og lærisveinum hans í Fylki. Hefst sá leikur kl. 18.00 og hvetjum við KA menn á höfuborgarsvæðinu að leggja upp í lautarferð upp í Árbæ og styðja við bakið á KA liðinu. Áfram KA!