Daníel valinn í A-landsliðið

Fótbolti

Daníel Hafsteinsson var í dag valinn í A-landslið Íslands í knattspyrnu sem leikur vináttulandsleik gegn Sádi-Arabíu þann 6. nóvember næstkomandi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þá eru þeir Ívar Örn Árnason og Þorri Mar Þórisson valdir í hópinn til vara.

Alls eru 23 leikmenn í hópnum auk fimm varamanna en auk leiksins gegn Sádi-Arabíu er vonast til að bæta við öðrum vináttulandsleik í glugganum. Leikirnir fara fram utan við alþjóðlegra landsliðsglugga og eru því einungis leikmenn úr deildum sem eru í fríi á þessum tíma valdir.

Danni hefur verið algjörlega magnaður á miðjunni hjá KA í sumar og ekki spurning að hann á þetta frábæra tækifæri svo sannarlega skilið. Þá verður gaman að sjá hvort að þeir Ívar og Þorri fái tækifæri líka en eins og fyrr segir eru þeir klárir til vara ef eitthvað skyldi breytast.

Virkilega spennandi verkefni framundan en Bestu deildinni lýkur þann 29. október næstkomandi og lengist því tímabilið aðeins hjá þeim Danna, Ívari og Þorra með komu þessa landsliðsverkefnis. Við óskum þeim félögum til hamingju sem og góðs gengis.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband