Rakel Sara framlengir - Bíleyri styrkir KA/Þór

Handbolti
Rakel Sara framlengir - Bíleyri styrkir KA/Þór
Rakel Sara fyrir utan Bíleyri

Rakel Sara Elvarsdóttir skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við KA/Þór og er nú samningsbundin út tímabilið 2026-2027. Eru þetta ákaflega jákvæðar fréttir enda er Rakel Sara einn allra besti hornamaður landsins.

Rakel Sara er uppalin hjá KA/Þór er 22 ára gömul og leikur í hægra horni. Hún var aðeins 15 ára gömul þegar hún kom inn í meistaraflokkslið KA/Þórs veturinn 2018-2019 og varð strax lykilmaður í liðinu. Hún var valin efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna veturinn 2020-2021 þegar KA/Þór hampaði öllum titlum tímabilsins og stóð því uppi sem Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari auk þess að vera Meistari Meistaranna.

Rakel gekk í raðir norska liðsins Volda tímabilið 2022-2023 þar sem hún lék í efstu deild Noregs sem er ein sterkasta deild heims. Þá var hún einnig valin í A-landslið Íslands en þar áður var hún í lykilhlutverki með yngrilandsliðum Íslands þar sem hún keppti bæði á EM og HM og var valin í lið mótsins.

Rakel sneri aftur heim eftir dvölina í Noregi en varð fyrir því óláni að slíta krossband fyrir um ári síðan. Hún hefur sýnt mikinn karakter og er að koma til baka eftir þessi erfiðu meiðsli og ljóst að það verður gríðarlega mikill styrkur fyrir KA/Þór að njóta krafta hennar á ný en stelpurnar endurheimtu sæti í deild þeirra bestu á dögunum.

Myndatakan fór fram hjá Bíleyri en fyrirtækið hefur verið einn af lykil samstarfsaðilum KA/Þórs undanfarin ár og erum við afar þakklát fyrir þetta góða samstarf við þetta öfluga fyrirtæki hér í bænum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband