Undanúrslit bikarsins í húfi á morgun

Fótbolti

Það er heldur betur stórleikur á Greifavellinum á morgun, þriðjudag, þegar KA tekur á móti Grindavík í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins klukkan 17:30. Sæti í undanúrslitum bikarsins er í húfi og alveg ljóst að við þurfum að troðfylla stúkuna og koma strákunum áfram í næstu umferð.

Annað árið í röð er KA komið í 8-liða úrslit bikarsins og er þetta í fjórtánda skiptið í sögunni. Í átta af þrettán skiptum hefur KA unnið sigur og tryggt sér sæti í undanúrslitunum en í fyrra vannst 3-0 heimasigur á Ægi á þessu stigi keppninnar.

Grindvíkingar leika í Lengjudeildinni í sumar en á leið sinni í leikinn lögðu þeir meðal annars stórliðs Vals og það með sannfærandi hætti 1-3 á heimavelli Vals þar sem þeir gulklæddu komust í 0-3. Þar áður slógu Grindvíkingar út Dalvík/Reyni með 2-1 heimasigri og Aftureldingu með 0-1 útisigri í Mosfellsbæ.

Á leið sinni í leikinn hefur KA slegið út lið Uppsveita í 32-liða úrslitunum með 5-0 sigri og svo HK með 1-3 sigri í Kórnum í 16-liða úrslitunum.


KA vann sigur í Inkassodeildinni sumarið 2016

KA og Grindavík mættust síðast í bikarnum sumarið 2016 en þá léku bæði liðin í næstefstu deild og fóru bæði upp það sumarið, KA vann sigur í Inkassodeildinni en Grindvíkingar urðu í öðru sæti. Grindvíkingar höfðu þó betur í bikarleiknum með 1-0 sigri í Grindavík.

Leikurinn á morgun verður sjötti bikarslagur liðanna en ótrúlegt en satt mættust liðin þrjú sumur í röð í bikarnum árin 2010-2012. Fyrst mættust liðin í bikarnum sumarið 1996, Sinisa Kekic kom heimamönnum í Grindavík í 1-0 í upphafi síðari hálfleiks en Halldór Sveinn Kristinsson, Bjarni Jónsson og Þorvaldur Makan Sigbjörnsson tryggðu 1-3 sigur KA.

Sumarið 2010 vann KA sætan 4-5 sigur í vítaspyrnukeppni eftir að staðan var 1-1 eftir framlengingu. Dávid Disztl kom KA yfir en Grétar Ólafur Hjartarson jafnaði metin fyrir heimamenn. Grindvíkingar höfðu betur á Akureyrarvelli sumrin 2011 og 2012 og hafa því unnið þrjá bikarleiki liðanna en KA tvo.

Það má búast við hörkuleik og klárt að við þurfum að fjölmenna í stúkuna og styðja strákana áfram í undanúrslitin, hlökkum til að sjá ykkur og áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband