U17 áfram í milliriðil í forkeppni EM

Fótbolti
U17 áfram í milliriðil í forkeppni EM
Ívar, Elvar og Valdi stóðu sig frábærlega

U17 ára landslið Íslands í knattspyrnu tryggði sér sæti í milliriðli í forkeppni EM en íslenska liðið varð í 2. sæti í sterkum riðli sem leikinn var í Makedóníu undanfarna daga. Þrír leikmenn KA léku með liðinu en þetta eru þeir Elvar Máni Guðmundsson, Ívar Arnbro Þórhallsson og Valdimar Logi Sævarsson.

Efstu tvö liðin í riðlinum tryggðu sér sæti í næstu umferð forkeppninnar og var fyrsti leikur íslenska liðsins gegn heimamönnum í Makedóníu. Fyrirfram var reiknað með að sá leikur myndi skera úr um hvort liðið myndi fylgja sterku liði Frakka uppúr riðlinum.

Íslenska liðið reyndist hinsvegar töluvert sterkari aðilinn í leiknum og vann að lokum 0-3 sigur en Ívar lék allan tímann í markinu og Elvar Máni kom inná í upphafi síðari hálfleiks.

Næst léku strákarnir við Lúxemborg og aftur var um hálfgerðan úrslitaleik að ræða. Leikurinn var markalaus í hálfleik en síðari hálfleikur fór fjörlega af stað, Ísland náði forystunni á annarri mínútu en strax í kjölfarið jafnaði lið Lúxemborg. En tvö mörk með skömmu millibili á 70. mínútu tryggðu íslenska liðinu 3-1 sigur og þar með sæti í milliriðlinum. Aftur lék Ívar allan leikinn í markinu og Valdimar Logi kom inn á sem varamaður.

Lokaleikurinn fór fram í dag er Ísland og Frakkar börðust um efsta sætið og voru bæði lið með fullt hús stiga. Frakkar leiddu 0-2 í hálfleik og leit út fyrir að það yrðu lokatölur en á elleftu stundu tókst Frökkunum að bæta við tveimur mörkum og 0-4 sigur þeirra fullstór miðað við gang leiks. Elvar Máni var í byrjunarliðinu en var skipt útaf í þeim síðari og kom Valdimar Logi inn á sem varamaður í síðari hálfleiknum.

Virkilega flott niðurstaða og íslenska liðið því komið í næstu umferð og í hörkubaráttu um sæti í lokakeppni EM. Þeir Elvar, Ívar og Valdi geta verið ansi stoltir af sinni framgöngu og algjörlega frábært að við KA-menn eigum jafn marga fulltrúa í lokahóp landsliðsins og raun ber vitni. Sá fjórði átti einnig að vera í hópnum en hann Nóel Atli Arnórsson þurfti að draga sig úr hópnum en hann leikur í akademíu Álaborgar í Danmörku.

Dregið verður í milliriðil þann 8. nóvember næstkomandi og afar spennandi mótherjar sem bíða strákanna.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband