Flýtilyklar
Þór/KA áfram í bikarnum (myndir)
Þór/KA tók á móti Keflavík í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í gær en leikurinn var fyrsti leikurinn hjá okkar liði í þó nokkurn tíma en síðasti leikur fór fram 24. júní. Á sama tíma hefur lið Keflavíkur verið á miklu skriði en Keflavík er á toppi Lengjudeildarinnar og mátti því búast við hörkuleik.
Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á leiknum og býður til myndaveislu frá hasarnum sem hægt er að skoða með því að smella á myndina hér fyrir neðan.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum
Andri Hjörvar gerði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu en það kom ekki að sök og fyrsta mark leiksins kom strax á 13. mínútu þegar Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir tók vel við fyrirgjöf inn í teignum og renndi boltanum svo laglega í netið. Stelpurnar héldu svo áfram að stýra leiknum en gestirnir reyndu hvað þær gátu að jafna metin.
Þrátt fyrir nokkrar ágætistilraunir tókst liðunum ekki að bæta við mörkum í leikinn og 1-0 sigur okkar liðs því staðreynd. Stelpurnar tryggðu sér því sæti í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins og mæta þar Haukum og aftur fáum við heimaleik. Rétt eins og Keflavík leika Haukar í Lengjudeildinni og verður gaman að sjá hvort stelpurnar nái ekki að tryggja sér sæti í undanúrslitunum.
Áætlað er að leikur Þórs/KA og Hauka fari fram á Þórsvelli 12. ágúst næstkomandi.