Myndaveislur frá lokaleik sumarsins

Fótbolti
Myndaveislur frá lokaleik sumarsins
Frábært sumar að baki (mynd: Þórir Tryggva)

KA og FH áttust við á Greifavellinum um helgina í lokaumferð Pepsi Max deildarinnar þetta sumarið. KA gat með sigri tryggt sér 3. sæti deildarinnar en það var þó ljóst að verkefni dagsins yrði krefjandi enda FH með hörkulið sem hafði unnið sex af síðustu sjö leikjum sínum.

Þeir Þórir Tryggvason, Egill Bjarni Friðjónsson og Sævar Geir Sigurjónsson ljósmyndarar voru allir á leiknum og bjóða til myndaveislu frá herlegheitunum. Við kunnum þeim félögum kærar þakkir fyrir ómetanlegt framlag í sumar og hafa myndir þeirra svo sannarlega gefið umfjölluninni um liðið okkar aukinn lit.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum

Leikurinn fór fjörlega af stað enda ætluðu strákarnir sér sigurinn og á sama tíma voru gestirnir mættir til að reyna að skemma veisluna. FH hafði einmitt skemmt fyrir Breiðablik í síðustu umferð sem gerði það að verkum að Blikar misstu af Íslandsmeistaratitlinum að lokum.

Fyrsta markið kom á 29. mínútu þegar FH-ingurinn Ólafur Guðmundsson nýtti sér sjáldséð mistök hjá Steinþóri Má Auðunssyni í marki KA eftir hornspyrnu. Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleik og gestirnir því 0-1 yfir í hléinu.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Nökkvi Þeyr Þórisson jafnaði hinsvegar metin í upphafi síðari hálfleiks með stórkostlegu skoti upp í vinkilinn. En því miður tókst gestunum að svara strax í kjölfarið með laglegu marki þar sem Oliver Heiðarsson lyfti boltanum yfir Steinþór í markinu og strákarnir því aftur marki undir.

Pressan á vörn FH varð gríðarleg á lokakaflanum og gáfu strákarnir allt í leikinn til að koma sér aftur inn í baráttuna. Markið lét bíða eftir sér og kom upp töluverður pirringur í leikmenn og þjálfara sem endaði með rauðu spjaldi á Dusan Brkovic á 86. mínútu.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum

Einum færri fékk KA liðið vítaspyrnu í uppbótartíma og Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði úr henni metin í 2-2. Strákarnir fengu svo einn möguleika til að stela sigrinum en náðu ekki að nýta aukaspyrnu við teiginn og lokatölur því 2-2 jafntefli.

Gríðarlega svekkjandi niðurstaða enda alveg ljóst að liðið ætlaði sér sigur í leiknum og þar með 3. sæti deildarinnar. En þegar litið er yfir sumarið verður að viðurkennast að 4. sætið er frábær árangur og mjög skýrt að strákarnir tóku mikilvæg skref fram á við á tímabilinu.

Við munum halda áfram að gefa í og vonandi verður aðstaðan hjá liðinu orðin sú að við getum spilað alla heimaleiki okkar á okkar eigin velli en þrír af fjórum heimaleikjum liðsins í sumar fóru fram á Dalvíkurvelli og töpuðust þrír þeirra.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband