Myndaveislur er KA fór áfram í bikarnum

Fótbolti
Myndaveislur er KA fór áfram í bikarnum
Frábær sigur í hús! (mynd: Þórir Tryggva)

KA tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins með sannfærandi 3-1 heimasigri á liði Vestra í landsbyggðarslag á Greifavellinum. KA liðið lék einn sinn besta leik í sumar og eru strákarnir nú þriðja árið í röð komnir áfram í 8-liða úrslit bikarkeppninnar.

Þeir Þórir Tryggvason og Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndarar voru á leiknum og bjóða báðir upp á myndaveislur frá leiknum.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum

Það voru reyndar gestirnir sem gerðu fyrsta mark leiksins er Jeppe Gertzen kom boltanum í netið undir lok uppbótartíma fyrri hálfleiks. Líklega var það eina skot gestanna á markið í hálfleiknum og má með sanni segja að markið hafi verið blaut tuska í andlit okkar manna.

En strákarnir komu tvíefldir til leiks eftir hléið og Rodrigo Gomes Mateo jafnaði metin strax á upphafsmínútum síðari hálfleiks eftir fyrirgjöf frá Birgi Baldvinssyni. Hans Viktor Guðmundsson kom KA svo yfir skömmu síðar með laglegu skallamarki eftir hornspyrnu Daníels Hafsteinssonar.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Bjarni Aðalsteinsson gekk svo frá leiknum með stórbrotnu marki beint úr aukaspyrnu á 64. mínútu og staðan orðin 3-1. Úrslitin eins og áður segir í raun ráðin og fjaraði leikurinn út í kjölfarið.

Sigurinn og frammistaðan er kærkomin og klárt mál að við munum byggja ofan á þessum flotta leik. Bikarævintýrið heldur áfram og ekki spurning að við stefnum á að endurtaka leikinn frá síðustu leiktíð er strákarnir fóru í sjálfan bikarúrslitaleikinn. Dregið verður í 8-liða úrslitin á þriðjudaginn kemur.

Næsti leikur er þó í Bestudeildinni en á mánudaginn taka strákarnir á móti Fylki á Greifavellinum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband