KA leikur á Greifavellinum næstu 2 árin

Fótbolti
KA leikur á Greifavellinum næstu 2 árin
Samningurinn handsalaður á Greifavellinum

Knattspyrnudeild KA og Greifinn skrifuðu undir nýjan styrktarsamning í dag og mun heimavöllur okkar KA-manna bera nafnið Greifavöllurinn næstu tvö árin. Sumarið 2018 gerðu KA og Greifinn fyrst álíka samning sín á milli og hefur því heimavöllur okkar hér á Akureyri borið nafnið Greifavöllurinn síðan.

Þetta eru afar jákvæðar fréttir en Greifinn hefur verið einn af stærstu styrktaraðilum knattspyrnudeildar undanfarin ár og ljóst að þetta farsæla samstarf heldur áfram næstu árin. Undirstaðan bakvið okkar metnaðarfulla starf bæði innan sem utan vallar reyðir sig á samstarf við góða aðila og kunnum við Greifamönnum bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Við viljum minna á að við hvetjum KA-menn eindregið til að beina viðskiptum sínum til bakhjarla félagsins en með því erum við óbeint að styrkja KA.

Sævar Pétursson framkvæmdarstjóri KA skrifaði undir fyrir hönd félagsins og þá skrifuðu þeir Arinbjörn Þórarinsson, Róbert Már Kristinsson og Markús Gústafsson undir samninginn fyrir hönd Greifans.

Afar spennandi tímar eru nú framundan hjá okkur KA-mönnum en gríðarleg vinna hefur verið unnin á svæðinu okkar til að gera það klárt fyrir fyrsta heimaleik sumarsins. Mikil og skemmtileg dagskrá verður fyrir leik KA og Fram á fimmtudaginn og hlökkum við til að taka á móti ykkur á Greifavellinum!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband