KA í Evrópukeppni sumarið 2023

Fótbolti

Það varð ljóst í kvöld að með mögnuðum árangri sínum í sumar mun KA taka þátt í Evrópukeppni næsta sumar og verður það í þriðja skiptið í sögu félagsins sem KA keppir í Evrópukeppni í knattspyrnu.

Þó fjórar umferðir séu enn eftir af Bestu deildinni er það nú orðið ljóst að KA mun aldrei enda neðar en í 3. sæti í sumar en alls munar fjórtán stigum á KA og Val sem er í 4. sætinu. Með sigri Víkinga í Bikarkeppninni á dögunum er klárt að efstu þrjú sæti deildarinnar munu gefa Evrópusæti og getum við því glaðst yfir þessum stórmerka áfanga.

KA tryggði sér sæti í Evrópukeppni meistaraliða sumarið 1990 með því að verða Íslandsmeistari í Hörpudeild sumarið 1989 og var það í fyrsta skiptið sem félagið lék í Evrópukeppni. Þar mætti KA stórliði CSKA Sofia frá Búlgaríu og gerði sér lítið fyrir og vann fyrri leik liðanna 1-0 á Akureyrarvelli. Það dugði þó ekki því CSKA vann síðari leikinn 3-0.

Aftur tryggði KA sér sæti í Evrópukeppni með því að enda í 4. sæti Símadeildarinnar sumarið 2002 og lék því í Intertoto keppninni sumarið 2003. Þar mætti KA liði FK Sloboda Tuzla frá Bosníu en liðin gerðu 1-1 jafntefli í báðum leikjum og fór einvígið því í vítaspyrnukeppni. Þar fóru Tuzla menn með sigur af hólmi og fóru því áfram.

Loksins er komið að því að KA leiki aftur í Evrópukeppni og verður heldur betur gaman að sjá hverjir andstæðingar okkar verða, fyrst er þó að klára núverandi sumar og enda eins ofarlega og hægt er í deild þeirra bestu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband