Haukur Heiðar leggur skóna á hilluna

Fótbolti
Haukur Heiðar leggur skóna á hilluna
Takk Haukur Heiðar!

Haukur Heiðar Hauksson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir langvarandi meiðsli. Haukur sem er þrítugur að aldri er uppalinn hjá KA og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið þann 12. maí 2008 er KA lék gegn Fjarðabyggð en Haukur kom þá inná sem varamaður fyrir Dean Martin.

Haukur varð algjör lykilmaður í liði KA og lék 91 leik fyrir félagið í deild og bikar á árunum 2008 til 2011 og gerði í þeim 6 mörk. Í kjölfarið gekk hann í raðir KR þar sem hann varð Íslandsmeistari og tvívegis Bikarmeistari. Árið 2015 gekk Haukur í raðir sænska stórliðsins AIK þar sem hann varð meðal annars sænskur meistari árið 2018.

Þá lék hann 7 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og var í EM hópi Íslands á Evrópumótinu í Frakklandi sumarið 2016 þar sem Ísland komst í 8-liða úrslit keppninnar.

Haukur sneri aftur heim í KA í desember mánuði 2018 og lék 24 leiki í deild og bikar sumrin 2019 til 2021. Haukur hefur sýnt gríðarlegan karakter á undanförnum árum þar sem hann hefur barist við erfið meiðsli og gefið af sér til KA. Nú er hinsvegar komið að endapunkti og óskum við honum til hamingju með glæsilegan feril sem og þökkum fyrir hans framlag til KA.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband