Fyrstu skóflustungurnar að nýjum keppnisvelli

Fótbolti

Í dag er ansi merkur dagur í sögu Knattspyrnufélags Akureyrar en í morgun voru teknar fyrstu skóflustungurnar að nýjum keppnisvelli félagsins í knattspyrnu. Á svæðinu verður byggður upp gervigrasvöllur ásamt glæsilegri stúku.

Það má með sanni segja að nú sé langri bið félagsins eftir keppnisaðstöðu á KA-svæðinu að ljúka en framkvæmdir á svæðinu voru settar á ís árið 2008 vegna fjármálakreppunnar. Það var því eðlilega mikil gleði er þau Rósa María Hjálmarsdóttir og Mikael Breki Þórðarson tóku fyrstu skóflustungurnar sem markar upphafið af uppbyggingunni sem við höfum beðið svo lengi eftir.


Rósa María Hjálmarsdóttir og Mikael Breki Þórðarson

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á KA-svæðinu í sumar en skipt var um gervigras á vellinum sem settur var upp á svæðinu árið 2013 og það gamla nýtt við gerð nýs vallar. Hinn nýi komandi keppnisvöllur verður því þriðji gervigrasvöllurinn á svæði félagsins.

Í kjölfar nýja gervigrassins á gamla vellinum fóru sjálfboðaliðar KA í gríðarlegt starf við að gera þann völl að okkar heimavelli á meðan við bíðum eftir að okkar endanlegi keppnisvöllur verður tilbúinn.

Það eru því ansi spennandi tímar framundan hjá okkur KA-mönnum og ljóst að öll aðstaða til knattspyrnuiðkunar verður innan skamms með besta móti. Þá er árangur okkar liðs í sumar algjörlega stórkostlegur og verður spennandi að fylgjast með strákunum okkar í toppbaráttu Bestu deildarinnar sem og í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband