Fjórir KA-menn léku með U17 gegn Finnum

Fótbolti
Fjórir KA-menn léku með U17 gegn Finnum
Aron, Jói, Árni og Mikki flottir í Finnlandi

Íslenska landsliðið í knattspyrnu skipað leikmönnum 17 ára og yngri lék tvo æfingaleiki við Finna í vikunni en leikið var í Finnlandi. KA átti fjóra fulltrúa í liðinu og átti ekkert lið jafn marga í hópnum.

Þetta eru þeir Aron Daði Stefánsson, Árni Veigar Árnason, Jóhann Mikael Ingólfsson og Mikael Breki Þórðarson en þeir Aron og Jóhann voru þarna að spila sína fyrstu landsleiki.

Liðin mættust fyrst á miðvikudaginn þar sem Ísland vann flottan 1-2 sigur en þeir Aron Daði og Mikael Breki voru í byrjunarliðinu. Þeir Jóhann og Árni komu inná sem varamenn í síðari hálfleik.

Í síðari leiknum sem leikinn var á föstudaginn var á brattann að sækja og tapaðist sá leikur 4-1. Mikael Breki var aftur í byrjunarliðinu og þá komu þeir Aron, Árni og Jóhann inná sem varamenn í þeim síðari.

Frábær reynsla fyrir okkar mögnuðu stráka og afar gaman að allir fjórir hafi spilað í báðum leikjum. Það er ljóst að þeir geta verið afar stoltir og verður áfram spennandi að fylgjast með framgöngu þeirra á vellinum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband