Brynjar Ingi valinn í A-landslið Íslands

Fótbolti

Brynjar Ingi Bjarnason var í dag valinn í A-landslið Íslands í knattspyrnu sem er á leið til Bandaríkjanna þar sem liðið mun spila æfingaleik við Mexíkó. Leikurinn fer fram 30. maí næstkomandi. Í kjölfarið leikur liðið svo við Færeyjar og Pólland.

Brynjar Ingi sem er 21 árs gamall hefur farið hamförum með liði KA að undanförnu og er þrátt fyrir ungan aldur orðinn algjör lykilmaður í liðinu sem situr á toppi Pepsi Max deildarinnar eftir fyrstu fjórar umferðir sumarsins. Alls hefur hann leikið 38 leiki fyrir KA í deild og bikar og gert í þeim þrjú mörk.

Það fer ekki á milli mála að Brynjar á tækifærið svo sannarlega skilið og óskum við honum innilega til hamingju sem og góðs gengis í þessu spennandi verkefni. Mexíkó stendur í 11. sæti heimslista FIFA og verða verkefnin því ekki mikið stærri en þetta.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband