Aðgerðaráætlun N1 mótsins vegna Covid-19

Fótbolti
Aðgerðaráætlun N1 mótsins vegna Covid-19
KA-svæðinu verður skipt upp í þrennt

N1 mót KA hefur verið haldið á hverju ári frá 1987 og verður engin undantekning á því í ár. Mótið mun hefjast miðvikudaginn 1. júlí og ljúka laugardaginn 4. júlí eins og áætlað var en með þeim fyrirvara að ekki komi upp bakslag í aðgerðum almannavarna.

Framkvæmd og skipulag mótsins er unnin í nánu samráði við almannavarnir og bæjaryfirvöld Akureyrar. Mótsstjórn mun að sjálfsögðu fara eftir þeirra tilmælum í einu og öllu til að gæta fyllsta öryggis.

Undanfarin ár hefur mótið einungis farið fram á KA-svæðinu en í ár munum við einnig spila á Greifavellinum (Akureyrarvelli). Þá verður KA-svæðinu skipt niður í þrjú hólf til að takmarka samgang fólks og verður til að mynda sér klósettaðstaða á öllum svæðunum þremur.

Von er á miklum fjölda keppenda á mótið og skiptir öllu máli að við vinnum öll saman að því að fara eftir fyrirmælum yfirvalda svo mótið gangi smurt fyrir sig og allir fái jákvæða og góða upplifun af mótinu.

Leikjaplani mótsins verður breytt og munu liðin leika þéttar yfir daginn en hefur verið til að minnka fjölda á svæðinu. Rétt eins og undanfarin ár mun KA-TV sýna beint frá mótinu og mun gera sitt besta að sýna frá sem flestum liða er taka þátt.

Sund

Við höfum boðið þátttakendum N1 mótsins í sund í Akureyrarlaug en það er ljóst að fyrirmæli yfirvalda er varðar sundlaugar mun hafa áhrif á mótið í ár. Farið verður eftir þeim takmörkunum sem verða í gildi þegar mótið fer fram.  Auka þrif og sótthreinun mun verða í búningsklefum og sundlaug meðan N1-mótið fer fram.

Matur

Morgunmatur verður í hverjum skóla fyrir sig.  Hádegismatur og kvöldmatur verður í boði áfram í íþróttasal KA-heimilisins en takmarkað aðgengi fullorðina verður í matsal og er miðað við að einungis einn fullorðinn einstaklingur fari með hverju liði í mat. 

Gisting

Breytingar verða á gistimálum mótsins en síðustu ár hafa þátttakendur N1 mótsins gist í þremur skólum í nágrenni KA-svæðisins. Til að bregðast við breyttum aðstæðum munum við dreifa þátttakendum í fleiri skóla á Akureyrarsvæðinu. Að sjálfsögðu verður mikið lagt upp úr því að þrífa snertifleti og passa að fjöldatarkmarkanir séu virtar.

Því verður beint til foreldra að safnast ekki saman á gististöðum í skólum og að keppendur verði þar í stofum í umsjón fararstjóra. Varsla verður í skólum.Matur

Tónleikar

Tónleikar í boði N1 verða á sínum stað á föstudagskvöldinu en í þetta skiptið verða þeir eingöngu fyrir keppendur á mótinu.  Með hverju liði má þó koma einn liðstjóri/fararstjóri.

Tjaldsvæði

Bæjaryfirvöld á Akureyri eru að skoða útfærslur á tjaldsvæðum sínum í samráði við aðgerðastjórn almannavarna. Farið verður eftir þeim reglum sem verða í gildi á þeim tíma sem mótið fer fram. Við bendum á heimasíðu Hamra sem er stærsta tjaldsvæðið í kringum Akureyri er varðar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu: http://hamrar.is

Sóttvarnir

Mikill fjöldi sjálfboðaliða mun vinna með okkur í því að passa upp á að þrif og sótthreinsun verði í lagi. Allur búnaður sem viðkemur mótinu (bolti, vesti ofl.) verður þrifinn reglulega og þá verður sprittstöðvum komið upp á helstu svæðum mótsins.

Greifavöllur (Akureyrarvöllur)

Veitingasala og klósettaðstaða eru í stúkusvæði og ætlumst við til að foreldrar og forráðamenn keppenda haldi sig þar.

Þátttakendur halda sig hinsvegar á vallarsvæðinu sem er aðskilið stúkusvæðinu.

KA-svæðið

KA svæðinu er skipt í þrjá hluta.

Á aðalgrassvæðinu (rauða svæðið) er klósettaðstaða niður neyðarútgang vestan megin og veitingasala í einum hluta af íþróttasalsins.

Á gervigrassvæðinu (bláa svæðið) er klósett niður tröppurnar við KA-Heimilið og veitingasala í fundarsal KA-Heimilisins.

Á grassvæðinu við Dalsbraut (gula svæðið) er klósett og veitingasala í Lundarskóla sem liggur við hlið svæðisins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband