6 dagar í fyrsta leik | Viðtal við Hallgrím Jónasson þjálfara: Tilhlökkun hjá mér og teyminu

Fótbolti

Nú eru aðeins 6 dagar í að KA hefji leik í Bestu deild karla ! Fyrsti leikur KA er á heimavelli gegn KR þann 10. apríl næstkomandi.

Hér á heimasíðu KA ætlum við að hafa niðurtalningu með allskonar skemmtiefni þangað til að fyrsti leikur hefst. Við ætlum að rifja upp gamalt efni, ásamt því að kynnast liðinu okkar fyrir komandi sumar og rýna í hvað sérfræðingarnir hafa að segja um KA!

Hallgrímur Jónasson er að stýra liði KA í sumar eftir að hafa þjónað sem aðstoðarþjálfari Arnars Grétarssonar undanfarin tímabil. Haddi er spenntur fyrir komandi sumri og fékk KA.is hann til að svara nokkrum spurningum fyrir okkur:

Hvernig er stemmingin fyrir sumrinu?

Stemningin í hópnum er virkilega góð. Strákarnir búnir að leggja mikið á sig í vetur og gengið hefur verið gott. Okkur hlakkar til að byrja deildina fljótlega og svo rúsinan í pylsuendanum að fara í Evrópukeppni í KA treyjunni.

Fyrsta sumarið sem aðalþjálfari, finnuru fyrir pressu?

Nei get ekki sagt að ég finni fyrir mikilli pressu utanfrá. Ég set sjálfur pressu á mig að standa mig vel og gera eins vel og ég get fyrir KA. Það er meiri tilhlökkun hjá mér og teyminu og getum ekki beðið eftir að byrja mótin.

Hver eru markmið liðsins í sumar?

Markmiðið er að gera vel í öllum keppnum. Við teljum okkur vera eitt af toppliðunum á Íslandi og viljum komast í Evrópukeppni aftur og gera atlögu að titlinum. Við erum með lið sem getur verið í toppbaráttu. Í Evrópukeppninni tökum við hverja umferð fyrir í einu og stefnum á að fara áfram úr því einvígi. Við duttum út  í bikarnum í fyrra í undanúrslitum og viljum fara alla leið þar í ár.

Hvað verður lykilinn að velgengni hjá KA í sumar?

Lykillinn er að menn séu tilbúnir að vinna vel fyrir hvorn annan. Við þekkjum okkar leikstíl vel og flestir búnir að vera hjá okkur í nokkur ár í svipuðum leikstíl. Við þurfum að halda áfram að fá á okkur fá mörk eins og síðustu ár og vera sterkir andlega þegar mikið er undir.

Ertu ánægður með leikmannahópinn eða á að bæta við?

Já ég er virkilega ánægður með hópinn. Þeir sem hafa komið inn hafa aðlagast vel og staðið sig vel á undirbúningstímabilinu. Við erum ekki með mikil meiðsli í hópnum á þessum tímapunkti sem er ánægjulegt. Við erum ekki að fara að bæta við hópinn okkar eins og staðan er núna.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband