12 frá KA og Þór/KA í landsliðsverkefnum

Fótbolti
12 frá KA og Þór/KA í landsliðsverkefnum
Ísfold og Kári eru í U19 hópunum

Það er nóg um að vera hjá yngrilandsliðum Íslands í fótboltanum um þessar mundir og eru alls 12 fulltrúar frá KA og Þór/KA í landsliðsverkefnum næstu dagana.

Kári Gautason hefur leikið ákaflega vel með KA á undirbúningstímabilinu var valinn í æfingahóp U19 ára landsliðs Íslands sem æfir þessa dagana í Skessunni í Hafnarfirði og leikur svo æfingaleik gegn ÍA á morgun, miðvikudag.

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir er í æfingahóp U19 ára landsliðs kvenna sem einnig æfir þessa dagana í Skessunni en stelpurnar mæta svo Aftureldingu í æfingaleik á morgun. Framundan eru milliriðlar undankeppni EM 2022 þar sem Ísland mætir Englandi, Wales og Belgíu í Englandi 6.-12. apríl.

Angela Mary Helgadóttir og Krista Dís Kristinsdóttir eru í liði U16 sem mætir Sviss í tveimur æfingaleikjum dagana 23. og 26. febrúar í Miðgarði í Garðabæ. Magnús Örn Helgason stýrir liðinu og verða báðir leikirnir í beinni útsendingu á vegum KSÍ.

Í kjölfarið hefur verið boðað til úrtökuæfinga hjá U16 hópnum þar sem þær Amalía Árnadóttir, Karlotta Björk Andradóttir og Kolfinna Eik Elínardóttir voru valdar í hópinn en æfingarnar fara fram dagana 28. febrúar til 2. mars í Skessunni í Hafnarfirði.

Andri Valur Finnbogason, Aron Daði Stefánsson og Sigursteinn Ýmir Birgisson eru í úrtakshóp U15 ára landsliðsins sem æfir dagana 23.-25. febrúar í Skessunni í Hafnarfirði.

Katla Bjarnadóttir og Tinna Sverrisdóttir voru loks valdar í æfingahóp U15 ára landsliðs kvenna sem æfir 28. febrúar til 2. mars í Skessunni í Hafnarfirði.

Við óskum okkar frábæru fulltrúum til hamingju með valið sem og góðs gengis í þessum spennandi verkefnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband