Flýtilyklar
Umfjöllun: Tap gegn Haukum
KA og Haukar áttust við í kvöld í 13. umferð Inkasso deildarinnar. Gestirnir í Haukum höfðu betur og unnu óvæntan 0-1 sigur.
KA 0 – 1 Haukar
0 – 1 Elton Barros (’61)
Lið KA:
Rajko, Hrannar Björn, Guðmann, Davíð Rúnar, Ívar Örn, Archange, Almarr, Hallgrímur Mar, Juraj og Elfar Árni.
Bekkur:
Fannar, Baldvin, Callum, Halldór Hermann, Ólafur Aron, Pétur Heiðar og Orri.
Skiptingar:
Archange út – Orri inn (’68)
Ívar Örn út – Pétur Heiðar inn (’74)
Það var heldur kuldalegt þegar að leikur KA og Hauka hófst í kvöld. KA menn voru töluvert sterkari í fyrri hálfleik svo vægt sé til orða tekið. Gestirnir í Haukum lágu til baka og leyfðu KA að vera með boltann.
Það var ágætis flæði í sóknarleik KA til að byrja með og bar það helst til tíðinda í fyrri hálfleik þegar að Aleksandar vann boltann að harðfylgi og gaf á Almarr í ágætis stöðu hægra megin út í teignum en skot hans var framhjá markinu.
Ekki tókst KA mönnum mikið að opna vörn gestanna, sem pökkuðu hreinlega í vörn. Svo fór að staðan var markalaus að fyrri hálfleik loknum.
Sá síðari var keimlíkur þeim fyrri en KA hélt boltanum meiri hluta leiksins en færin afar takmörkuð og átti KA fá svör við leik gestanna.
Það var svo á 61. mínútu sem fyrirliði Hauka, Gunnlaugar Fannar átti slaka aukaspyrnu upp völlinn sem Aleksandar missti framhjá sér og Guðmann reyndi að koma til bjargar en það vildi ekki betur til en að sending hans rataði beint á Gunnar Jökul leikmann Hauka, sem var fljótur að hugsa og gaf inn í teigin á Elton Barros sem kláraði færið af öryggi og kom gestunum mjög óvænt yfir og algjörlega gegn gangi leiksins. En þetta var einmitt fyrsta marktilraun Hauka sem höfðu einungis beitt háum löngum boltum upp völlinn.
Svo virtist sem KA hefði vaknað eilítið við markið og jókst pressan að marki Hauka. KA voru nokkrum sinnum líklegir til þess að jafna en alltaf vantaði herslumuninn og meiri gæði og ákefð á síðasta fjórðungi vallarins.
Þegar að venjulegum leiktíma var að ljúka fékk Haukur Ásberg Hilmarsson, leikmaður Hauka sem hafði komið inn á skömmu áður sem varamaður, rautt spjald fyrir ljóta tæklingu á Aleksandar.
Svo fór síðan að gestirnir náðu að halda út og sigra okkur í annað sinn í sumar. KA liðið var langt frá sínum besta leik í dag og var sóknarleikurinn afar bitlaus. Hins vegar var mikið um óvænt úrslit í þessari umferð í Inkasso deildinni og greinilegt að það er ekkert að marka stöðu liðanna í deildinni, þegar að á völlinn er komið. Þrjú efstu lið deildarinnar töpuðu stigum gegn liðunum í þremur neðstu sætunum. En við lifum og við lærum og mun KA liðið læra helling af leiknum í kvöld og koma tvíelfdir í næsta leik. Á því leikur enginn spurning.
KA-maður leiksins: Aleksandar Trininic (Var fínn í leiknum í dag. Vann fjöldan allann af boltum á miðjunni í dag.)
Að lokum viljum við minna á næsta leik KA sem verður föstudaginn 5. ágúst þegar að við förum austur á Seyðisfjörð og etjum kappi við Huginn. Hefst sá leikur kl. 19.15 og fer fram á Seyðisfjarðarvelli. Áfram KA!