Flýtilyklar
Umfjöllun: Svekkjandi tap fyrir austan
KA fór austur til Seyðisfjarðar síðastliðin föstudag og lék gegn Huginn. Heimamenn höfðu betur 1-0 með marki í uppbótartíma.
Huginn 1 – 0 KA
1 – 0 Stefán Ómar Magnússon (’93)
Lið KA:
Rajko, Hrannar Björn, Guðmann, Davíð Rúnar, Callum, Archange, Almarr, Hallgrímur Mar, Juraj og Elfar Árni.
Bekkur:
Fannar, Baldvin, Ásgeir, Ólafur Aron, Pétur Heiðar, Ívar Örn og Bjarki Þór.
Skiptingar:
Callum út – Ívar Örn inn (’23)
Rajko út – Fannar inn (’43)
Halldór Hermann út – Ásgeir inn (’72)
Fyrri hálfleikurinn var ákaflega tíðindalítill og ekkert um hættuleg marktækifæri. Það sem bar helst til tíðinda í fyrri hálfleik var það að Callum fór meiddur af velli á börum eftir 23. mínútna leik og Rajko fékk slæmt höfuðhögg þegar að 2 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þegar að sóknarmaður Hugins sparkaði í höfuð hans þegar að hann var að sleppa í gegn. Rajko var fluttur í burtu með sjúkrabíl eftir að hafa rotast við höggið. Í markið kom Fannar Hafsteinsson í sínum fyrsta leik í deild fyrir KA í sumar.
KA-menn mættu síðan mun beittari til síðari hálfleiks og var hann algjör eign KA. Heimamenn í Huginn fór vart fram yfir miðju. KA komust tvisvar mjög nálægt því að skora í síðari hálfleik.
Fyrst þegar að Guðmann átti skalla að marki sem virtist fara yfir marklínuna en dómararnir vildu meina að svo hafi ekki verið. Síðan þegar að Elfar Árni var felldur innan teigs á 81. mínútu og vítaspyrna dæmd. Elfar Árni steig sjálfur á punktinn en brást bogalistin að þessu sinni og skaut hátt yfir markið.
Áfram hélt KA að sækja og þyngdist pressan gífurlega á síðustu mínútunum. Huginsmenn nýtu sér það þegar að þeir áttu óvænta skyndisókn upp völlinn þar sem varamaðurinn Stefán Ómar Magnússon gerði vel að skora framhjá Fannari úr þröngu færi við endalínu. Gríðarlega svekkjandi og rennblaut tuska í andlit KA liðsins sem hafði stýrt leiknum frá A-Ö.
Annað tap liðsins í röð staðreynd og annar leikurinn í röð sem liðinu tekst ekki að skora. Liðið þarf svo sannarlega að sýna úr hverju þeir eru gerðir í næstu leikjum og sýna sitt rétta andlit.
KA-maður leiksins: Archange Nkumu (Erfitt að velja KA-mann leiksins en Archie stóð fyrir sínu á miðjunni og vann ótal marga bolta á miðjunni.)
Næsti leikur KA er á fimmtudaginn þegar að Leiknir F. koma í heimsókn á Akureyrarvöll. Hefst hann kl. 19.15 og hvetjum við alla mæta á völlinn og öskra strákana áfram. Áfram KA!