Umfjöllun: Sigur á Fjarðabyggð

Almennt | Fótbolti
Umfjöllun: Sigur á Fjarðabyggð
Mynd - Sævar Sig.

KA vann í kvöld sinn fjórða leik í röð þegar að liðið lagði Fjarðabyggð af velli 2-0 á Akureyrarvelli.

KA 2 – 0 Fjarðabyggð

1 – 0 Ásgeir Sigurgeirsson (’5) Stoðsending: Grímsi
2 – 0 Elfar Árni Aðalsteinsson (’90) Stoðsending: Almarr

Lið KA:

Rajko, Baldvin, Guðmann, Davíð Rúnar, Ívar Örn, Aleksandar, Almarr, Ásgeir, Hallgrímur Mar, Juraj og Elfar Árni.

Bekkur:

Fannar, Halldór Hermann, Ólafur Aron, Pétur Heiðar, Orri, Archange og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Guðmann út – Archange inn (’55)
Juraj út – Halldór Hermann inn (’76)
Elfar Árni út – Orri (’92)

KA og Fjarðabyggð áttust við í 9. umferð Inkasso deildarinnar í kvöld á Akureyrarvelli. KA liðið hóf leikinn gríðarlega vel og sóttu hart að marki gestanna. Eftir einungis 5 mínútna leik átti Hallgrímu Mar sendingu inn fyrir vörn gestanna sem Ásgeir hljóp uppi og tók svo varnarmann gestanna á og skaut föstu skoti með vinstri fæti framhjá markverði Fjarðabyggðar og kom KA yfir. Frábærlega gert hjá Ásgeiri sem hefur verið að spila einstaklega vel með KA í sumar.

Eftir markið gerðist fátt markvert í fyrri hálfleik. Annað en það að gestirnir í Fjarðabyggð sóttu í sig veðri og átti Sveinn Fannar Sæmundsson skot í slá á 38. mínútu.

Síðari hálfleikurinn hófst á sömu nótum og sá fyrri. Var heldur bragðdaufur. KA var ekki að skapa sér nein alvöru marktækifæri og gestirnir ekki að gera sig líklega heldur.

KA sótti hins vegar í sig veðrið og sóttu meira og meira að marki Fjarðabyggðar. Elfar Árni átti síðan á 75 mínútu laglegt skot sem small í þverslánni.

Það var síðan þegar að venjulegum leiktíma var að ljúka sem KA gerði út um leikinn en þá var Almarr felldur inn í teig og vítaspyrna dæmd. Vítið tók Elfar Árni og var hann ískaldur á punktinum og nelgdi boltanum upp í vinstra hornið framhjá markverði Fjarðabyggðar og kláraði leikinn fyrir KA.

Leikurinn í dag var kannski ekki sá skemmtilegasti en jákvætt er hversu liðið er að spila vel varnarlega og er búið að halda hreinu í 412 mínútur og gefur fá færi á sér.

KA-maður leiksins: Almarr Ormarsson (Vann vel á miðjunni í leiknum í dag og var góður varnar og sóknarlega. Brotið á honum í vítinu.)

Næsti leikur KA er þriðjudaginn næstkomandi, 12. júlí þegar að við heimsækjum Grindvíkinga heim í sannkölluðum hörkuleik. Leikurinn hefst kl. 19.15 og hvetjum við alla KA-menn sem hafa tök á að mæta til Grindavíkur og styðja liðið. Áfram KA! 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband