Flýtilyklar
Tilnefningar til liðs ársins hjá KA 2021
Fimm lið hjá KA eru tilnefnd til liðs ársins 2021 en þetta verður í annað skiptið sem verðlaun fyrir lið ársins verða veitt. Verðlaunin verða tilkynnt á 94 ára afmæli félagsins í byrjun nýs árs og spennandi að sjá hvaða lið hreppir þetta mikla sæmdarheiti.
Knattspyrnudeild - 3. flokkur kvenna
Þetta var annað árið sem að 3. flokkur kvenna er sameinaður með Þór. Sameinaðar mynduðu þær mjög sterkan flokk með öflugum stelpum. Árgangar 2005-2006 urðu Íslandsmeistarar í B-liða, Stefnumótsmeistarar í A og B-liðum, ReyCup meistarar í A-liðum og silfurhafar í B-liðum. Einnig voru þrjár úr flokknum sem spiluðu sína fyrstu leiki í efstu deild og sömu stelpur spiluðu einnig fyrir U16 og U17 ára lið Íslands. Glæsilegur árangur hjá þessum flotta flokk sem verður einnig virkilega öflugur næsta sumar eins og sást á Stefnumóti KA í nóvember þar sem A-liðið vann, A2 stóðu sig frábærlega sem og bæði B-liðin.
Handknattleiksdeild - 4. flokkur karla eldra ár
Strákarnir á eldra ári 4. flokks karla (fæddir 2006) í handbolta hjá KA hafa farið taplausir í gegnum undanfarin tímabil. Þeir fögnuðu Íslandsmeistaratitli í vor og voru komnir í úrslitahelgi bikarkeppninnar þegar að bikarinn var flautaður af vegna COVID19. Það er orðið lengra en margir muna hvenær drengirnir töpuðu síðast leik en þeir sitja á toppi efstudeildar um þessar mundir með fullt hús stiga. Fyrir utan að vera gríðarlega gott og þétt lið innan vallar er hópurinn góður og drengirnir til fyrirmyndar hvert sem þeir koma.
Knattspyrnudeild - 5. flokkur kvenna
Stelpurnar voru alveg frábærar á árinu. Um 45 stelpur æfðu í sumar hjá KA. Stelpurnar voru virkilega duglegar á æfingum og uppskeran var eftir því. A-lið flokksins vann öll mót sem það tók þátt í en þau voru Goðamótið, TM-mótið í Vestmannaeyjum og Íslandsmótið. Þær voru sérstaklega öflugar í sumar þar sem þær unnu alla sína leiki fyrir utan eitt jafntefli og kórónuðu þær frábært sumar með að vinna FH 6-0 í úrslitaleik Íslandsmótsins. B-liðið var einnig mjög öflugt í Vestmannaeyjum og komst alla leið í úrslitaleik Íslandsmótsins þar sem þær töpuðu í hörku leik gegn Breiðablik.
Knattspyrnudeild - Meistaraflokkur karla KA
Meistaraflokkur karla í knattspyrnu náði sínum næst besta árangri þegar þeir enduðu í 4. sæti í Pepsi Max deildinni. Þeir fengu 40 stig og voru með markatöluna 36-20 í 22 leikjum. Eitt stig var upp í 3. sæti sem hefði gefið Evrópusæti. Liðið vann Kjarnafæðismótið eftir sigur á Þór í úrslitaleik og komst í 16-liða úrslit Mjólkurbikarins. Þrátt fyrir að þetta hafi verið eitt besta tímabil í sögu meistaraflokks KA í knattspyrnu þá voru margir innan liðsins smá svekktir þar sem þeir voru í hörku séns að ná Evrópusæti fram í síðasta leik. Leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn og aðrir sem koma að liðinu mega þó vera mjög stoltir af liðinu.
Handknattleiksdeild - Meistaraflokkur kvenna KA/Þór
KA/Þór er/var handhafi allra fjögurra titla sem í boði eru á Íslandi fyrir tímabilið 2020-2021. Stelpurnar hófu tímabilið 2020 á því að verða meistarar meistaranna. Þær stóðu síðan uppi sem deildarmeistarar í lok apríl 2021 og Íslandsmeistarar mánuði síðar. Þær hófu síðan veturinn 2021-2022 á því að verða bikarmeistarar í Coca-Cola bikarkeppni kvenna sem átti að fara fram í mars 2021 en var frestað til haustsins 2021 vegna Covid.
Stelpurnar komust einnig í 32-liða úrslit í Evrópubikarkeppni kvenna þar sem þær lögðu Kósóvósku meistarana í 64-liða úrslitum. Þær lutu síðan lægra haldi fyrir spænsku bikarmeisturunum í BM Elche í 32-liða úrslitum með tveggja marka mun. Fimm leikmenn liðsins hafa verið valdar í A-landslið kvenna á árinu og sópuðu þær til sín verðlaunum á lokahófi HSÍ í sumar, bæði leikmenn og þjálfarar.