Flýtilyklar
Tilnefningar til Böggubikarsins 2016
Böggubikarinn skal veittur þeim einstaklingum, pilti og stúlku, sem eru á aldrinum 16- 19 ára og þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi.
Úrslitin eru kunngjörð á afmæli KA, þann 8. janúar næstkomandi.
Eftirtaldir einstaklingar eru tilnefndir, tveir frá hverri deild.
Blakdeild:
Þórarinn Örn Jónsson, 16 ára fæddur 2000.
Þórarinn er 16 ára gamall, mjög efnilegur blakari sem er á síðasta ári í þriðja flokki. Hann hefur verið einn aðalmaður meistaraflokksins í vetur þar sem hann spilar stöðu frelsingja.
Þórarinn mætir vel á æfingar, hann leggur sig fram og nær árangri. Hann er léttur í lundu og lífgar uppá æfingar og keppnisferðir með léttri og jákvæðri framkomu og saklausu gríni við félagana. Hann sýnir íþróttinni mikinn áhuga og setur markið hátt.
Þórarinn var valinn í bæði U- 17 og U-19 ára landslið Íslands í haust sem tóku þátt í NEVZA (Norður Evrópumót)mótum í Danmörku og Englandi.
Hildur Davíðsdóttir, 19 ára, fædd 1997.
Hildur er 19 ára gömul. Á árinu hefur hún verið fulltrúi Íslands bæði í A-landsliði og U-19 ára landsliði. Þess má geta að U-19 ára liðið náði þeim frábæra árangri að fá brons á NEVZA mótinu sem er frábær árangur og einn af þeim betri sem Ísland hefur náð. Í því liði var Hildur lykilmanneskja sem hún er einnig í meistaraflokksliði okkar.
Hildur lýkur námi á raungreinasviði MA í vor og stefnir á háskólanám í Bandaríkjunum n.k. vetur.
Auk þess sinnir hún æfingum af krafti og alúð. Hún er metnaðarfull, leggur sig alla fram, nær árangri og er hvetjandi á velli. Hildur tekur af skarið, segir það sem henni býr í brjósti og hlustar á hina. Hún er traust og stendur við orð sín og gjörðir.
Handknattleiksdeild:
Ásdís Guðmundsdóttir
Ásdís er 18 ára leikmaður m.fl. og 3.flokks KA/Þórs í handbolta.
Ásdís hefur verið valinn í yngri landsliðs Íslands.
Ásdís er mikill leiðtogi sem leggur sig alltaf 100% fram. Hún er sífellt hrósandi öðrum leikmönnum og stendur sig einnig mjög vel í þjálfun hjá 6.flokki kvenna.
Jónatan Þór þjálfari Ásdísar fullyrðir að þetta sé svokallaður draumaleikmaður að þjálfa. Hún mætir alltaf klár í öll verkefni og er hreint ótrúleg að hvetja sína leikmenn áfram.
Martha Hermannsdóttir leikmaður KA/Þórs gefur henni einnig frábær meðmæli. Það sé einfaldlega frábært að æfa með svona metnaðarfullri stelpur sem æfir mikið aukalega og leggur sig alltaf fram.
Ásdís er mikill KA maður og er alltaf tilbúinn að mæta í sjálfboðavinnu fyrir sitt félag.
Dagur Gautason
Dagur Gautason er 16 ára leikmaður 3.flokks KA og 2.flokks Akureyri.
Dagur hefur verið í yngri landslið Íslands síðustu ár.
Dagur er mjög metnaðarfullur leikmaður sem leggur sig alltaf 100% fram. Hann er ótrúlega flott fyrirmynd fyrir yngri iðkendur og er alltaf mættur fyrstur á æfingar og fer helst síðastur heim.
Hann leggur mjög mikið á sig og er alltaf tilbúinn að æfa aukalega.
Þjálfarar hans í fyrra Andri Snær og Jón Heiðar Sigurðsson lýsa honum sem fullkomnum leikmanni til að þjálfa. Hann hlustar á allar leiðsagnnir og er alltaf á fullu á öllum æfingum.
Dagur er eins og Ásdís gríðarlega mikill KA-maður og hikar ekki við að vinna sjálfboðavinnu fyrir klúbbinn.
Knattspyrnudeild:
Anna Rakel Pétursdóttir
Anna Rakel er fædd 1998 og varð því 18 ára á árinu. Hún er fyrirmyndar-KA maður innan vallar sem utan, afburða hæfileikarík í knattspyrnu , jákvæð, drífandi og fyrirmynd stúlkna sem drengja í KA. Anna Rakel hefur æft af kappi upp alla flokka KA, jafnt með stúlkum sem drengjum auk þess að þjálfa hjá félaginu. Anna Rakel var burðarás í liði Þór/KA/Hamrarnir í 2. flokki sem varð íslandsmeistari á árinu auk þess að spila lykilhlutverk með liði Þór/KA í Pepsí deild í sumar. Anna Rakel á að baki 50 leiki með meistaraflokki í deild og bikar og hefur í þeim skorað 7 mörk. Hún hefur jafnframt leikið 14 leiki með U17 landsliðinu og skorað í þeim 2 mörk. Hún hefur spilað 5 leiki með U19 landsliðinu og skorað í þeim 3 mörk. Anna Rakel var fyrir skömmu valin til æfinga með A-landsliði Íslendinga, sem undirbýr sig af kappi fyrir úrslitakeppni EM 2017.
Aron Dagur Birnuson
Aron Dagur er fæddur 1999 og er því 17 ára. Aron er eitt mesta markmanns efni sem fram hefur komið á landinu. Hann er aðalmarkvörður U17 landsliðsins og hefur leikið alls 12 leiki með liðinu. Hann hefur æft af kappi með yngri flokkum KA og iðulega verið aðalmarkvörður síns flokks. Honum hefur nokkrum sinnum verið boðið til æfinga hjá erlendum stórliðum sem hafa sýnt honum mikinn áhuga. Á þessu ári tók Aron Dagur þátt í sigri KA í Inkasso deildinni og lék hann tvo leiki með liðinu í sumar, auk þess að standa vaktina með 2. flokki KA í sumar. Aron Dagur hefur alltaf lagt sig allan fram á æfingum hjá félaginu og stefnir ótrauður að því að ná árangri fyrir sína hönd sem og KA.