Flýtilyklar
Þór/KA áfram með fullt hús stiga
Frábær byrjun Þórs/KA heldur áfram í Pepsi deild kvenna en í kvöld vann liðið 2-0 sigur á Haukum á Þórsvelli. Stelpurnar eru því áfram á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir 4. umferðir.
Þór/KA 2 - 0 Haukar
1-0 Hulda Björg Hannesdóttir ('65)
2-0 Sandra Mayor ('82, víti)
Leikurinn hófst á rólegu nótunum og gekk báðum liðum illa að skapa sér færi. Þór/KA stjórnaði leiknum að mestu leiti en erfiðlega gekk að brjóta baráttuglatt lið Hauka á bak aftur.
Það var því markalaust í fyrri hálfleik og ljóst að stelpurnar þurftu aðeins að fara yfir málin enda höfðu Haukar varist mjög vel og náð að skapa vissa hættu með skyndisóknum sínum. Það gekk eftir þar sem að Margrét Árnadóttir átti ágætis skalla í upphafi síðari hálfleiks en Tori Ornela í markinu varði vel.
Fyrsta markið kom svo á 65. mínútu þegar Andrea Mist Pálsdóttir átti góða sendingu á Huldu Björg Hannesdóttur sem kom sér snilldarlega í gegn og renndi boltanum í netið. Ísinn loksins brotinn og nú héldu margir að lið Hauka myndi gefa eftir.
En gestirnir svöruðu af krafti og var ljóst að Haukastelpur ætluðu sér svo sannarlega að fá stig útúr leiknum. Haukar sköpuðu sér nokkur færi en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir var hinsvegar vandanum vaxin í markinu og sýndi mikið öryggi.
Á 80. mínútu gerði Sandra Mayor vel þegar hún kom sér inn í teig og var felld. Vítaspyrna dæmd sem Sandra Mayor tók sjálf og skoraði af miklu öryggi, 2-0 og staðan orðin góð.
Mjög áhugaverð skipting var gerð á 85. mínútu þegar Sandra María Jessen kom inná fyrir Huldu Ósk Jónsdóttur. Sandra María sleit krossband í upphafi mars og hefur sýnt mikinn karakter að koma sér aftur í stand. Það verður áhugavert að fylgjast með Söndru í framhaldinu og frábært að sjá hana aftur á vellinum.
Lítið markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og frekar öruggur sigur Þórs/KA staðreynd.