Örfréttir KA - 23. apríl 2018

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Blak

Í örfréttapakka vikunnar förum við yfir frábæra þrennu í blakinu, umspilið um laust sæti í efstu deild í handboltanum, nýja samninga og komandi knattspyrnuleiki, endilega kíkið á pakkann og kynnið ykkur gang mála hjá KA!

Blak

KA er Íslandsmeistari í blaki eftir frábæran 3-0 sigur á HK í úrslitaeinvíginu. Mætingin í KA-Heimilið á lokaleikinn var algjörlega til fyrirmyndar og skapaðist frábær stemning á leiknum. KA vann þar með alla þrjá titla tímabilsins og er því Deildar-, Bikar og Íslandsmeistari. Óskum strákunum og öllum sem að liðinu koma til hamingju með þennan ótrúlega árangur.

Handbolti

Einvígi KA og HK um laust sæti í deild þeirra bestu í handboltanum er hafið og leiðir KA 1-0 eftir flottan 24-20 sigur í KA-Heimilinu á laugardag. Áki Egilsnes var markahæstur með 10 mörk og Sigþór Árni Heimisson gerði 4. Vinna þarf þrjá leiki til að vinna einvígið.

Jovan Kukobat markvörður KA skrifaði í vikunni undir nýjan samning og verður því áfram í herbúðum liðsins.

Kvennamegin þá skrifuðu Jónatan Magnússon og Þorvaldur Þorvaldsson undir nýja samninga og verður því áfram sama þjálfarateymi hjá liði KA/Þórs. Aldís Ásta Heimisdóttir skrifaði einnig undir nýjan samning en hún lék lykilhlutverk á nýliðnu tímabili.

Aðrar fréttir

Aðalfundur KA verður í KA-Heimilinu á þriðjudaginn klukkan 18:00 og hvetjum við alla sem geta til að mæta enda mikilvægir tímar framundan hjá félaginu.

Knattspyrnudeild KA verður með kynningarfund sinn í KA-Heimilinu á fimmtudaginn klukkan 21:00 þar sem spekingar spá í KA liðið sem og deildina ásamt því að leikmenn verða kynntir.

Næstu leikir

Einvígi KA og HK í handboltanum heldur áfram og mætast þau á þriðjudaginn í Digranesi og aftur í KA-Heimilinu á fimmtudag. Báðir leikir verða í beinni á KA-TV, ef fleiri leiki þarf verða þeir á laugardag og þriðjudag.

Í fótboltanum þá leika Íslandsmeistarar Þór/KA tvo úrslitaleiki í vikunni. Á þriðjudag mæta stelpurnar Stjörnunni í úrslitaleik Lengjubikarsins í Boganum og á sunnudaginn mæta þær ÍBV í leik meistara meistaranna á KA-velli.

Karlalið KA leikur svo sinn fyrsta leik í Pepsi deildinni í sumar þegar liðið sækir Fjölnismenn í Egilshöllina á laugardaginn. Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á leiki okkar liða og hvetja þau til sigurs.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband