Örfréttir KA - 16. apríl 2018

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak

Í örfréttapakka vikunnar förum við yfir góða stöðu í blakinu, Íslandsmeistaratitla í júdó, Þór/KA er komið í úrslit Lengjubikarsins og handboltinn fer aftur af stað, endilega fylgist með gangi mála hjá KA!

Blak

KA er komið í kjörstöðu í einvígi sínu gegn HK um Íslandsmeistaratitilinn í blaki. KA hefur unnið fyrstu tvo leiki liðanna til þessa 3-1 og tryggir sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í leik liðanna í KA-Heimilinu á þriðjudaginn. KA liðið er nú þegar Deildar- og Bikarmeistari og stefna strákarnir ótrauðir á þrennuna.

Fótbolti

Í fótboltanum er lið Þórs/KA komið í úrslit Lengjubikarsins eftir 1-0 sigur á Breiðablik á föstudag. Sandra Mayor gerði eina mark leiksins úr vítaspyrnu en í úrslitaleiknum mæta stelpurnar liði Stjörnunnar. Liðið dvelur nú á Alicante í æfingaferð.

Karlamegin þá vann KA ÍA í æfingaleik 1-2 á Akranesi á laugardaginn. Elfar Árni Aðalsteinsson og Hrannar Björn Steingrímsson gerðu mörk KA en tæpar tvær vikur eru í fyrsta leik í Pepsi deildinni.

Júdó

Á Íslandsmóti yngri flokka í júdó um helgina hömpuðu iðkendur KA alls 5 Íslandsmeistaratitlum en það voru þau Gylfi Edduson, Ólafur Jónsson, Baldur Bergsveinsson og Berenika Bernat en Berenika varð tvöfaldur Íslandsmeistari. Óskum þeim til hamingju.

Handbolti

Handboltinn fer aftur af stað í KA-Heimilinu á laugardaginn þegar umspilið um laust sæti í efstu deild að ári hefst. KA mætir þar annaðhvort Þrótti eða HK en þau mætast í kvöld í oddaleik.

Aðalfundir deilda

Í kvöld klukkan 18 fer fram aðalfundur blakdeildar og klukkan 18:45 er aðalfundur Spaðadeildar. Á morgun, þriðjudag, er aðalfundur Handknattleiksdeildar klukkan 18 og aðalfundur Júdódeildar er klukkan 18:45. Hvetjum alla sem hafa áhuga til að mæta.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband