Flýtilyklar
Magnús Dagur og Lydía hlutu Böggubikarinn
Magnús Dagur Jónatansson og Lydía Gunnþórsdóttir hlutu Böggubikarinn á 96 ára afmælisfögnuði KA í gær. Þetta var í tíunda skiptið sem Böggubikarinn er afhendur og eru þau Magnús og Lydía afar vel að heiðrinum komin.
Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.
Lydía er þrátt fyrir ungan aldur nú þegar orðin ein af máttarstólpum í meistaraflokksliði KA/Þórs. Hún er gríðarlega efnilegur leikstjórnandi, með mikinn leikskilning og er auk þess frábær skotmaður. Leiðtogahæfileikana hefur hún nóg af og var fyrirliði U-17 landsliðs kvenna sem gerði góða hluti á EM í sumar.
Þar stóð hún sig gríðarlega vel og var sjöunda markahæst á mótinu. Hún var einnig hluti af 3.fl liði KA/þór sem komumst í undanúrslit á Íslandsmótinu á síðasta keppnistímabili. Lydía er frábær félagsmaður og gefur mikið af sér.
Magnús er ótrúlega vinnusamur og duglegur strákur með mikinn metnað. Hann er harður varnarmaður og fylginn sér þar. Í sókninni er hann ákveðinn og beinskeyttur með góðan skilning á leiknum. Þá hefur hann mikla leiðtogahæfni og ekki oft sem maður sér stráka á þessum aldri jafn góða í að stýra og stjórna. Þessir eiginleikar gerðu það að verkum að hann varð fyrirliði U-17 landsliðsins sem fór á tvö mót í sumar og gerði þar góða hluti.
Þá er Magnús hluti af 2006 liði KA sem er eitt allra besta yngri flokka sem sést hefur á Íslandi en það lið tapaði ekki leik í tvö ár í 4. flokki og vann alla titla sem voru í boði. Að auki sigraði liðið Partille Cup sem er stærsta handboltamót heims en þar var Magnús lykilmaður. Í dag er Magnús svo orðinn stór hluti af meistaraflokksliði KA þrátt fyrir að vera bara 17 ára gamall. Magnús er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins og hefur undanfarin ár verið duglegur að gefa af sér til þeirra, sem þjálfari margra yngri flokka.