Flýtilyklar
Jónatan Magnússon ráðinn þjálfari mfl. kvenna hjá KA/Þór
Jónatan Magnússon hefur verið ráðinn þjálfari KA/Þórs í meistaraflokki kvenna í handknattleik. Jónatan er uppalinn KA-maður en samhliða þjálfun liðsins mun hann starfa hjá KA sem yfirþjálfari yngri flokka. Jónatan flyst búferlum heim frá Noregi í sumar þar sem hann hefur bæði þjálfað og spilað við góðan orðstýr undanfarin ár.
"Það er mikil tilhlökkun hjá mér og fjölskyldunni að koma heim," segir Jonni Magg, eins og hann er gjarnan kallaður. Jónatan lék með KA upp yngri flokkana og upp í meistaraflokk.
Jónatan skrifaði undir tveggja ára samning við KA/Þór en liðið mun spila í 1. deild kvenna á næsta tímabili. Samningar við leikmenn liðsins eru í endurnýjun um þessar mundir og er frekari tíðinda að vænta af því á næstunni.
Ljóst er að einhverjir leikmenn flytjast búferlum suður til Reykjavíkur til náms en mögulega koma aðrir í hina áttina en Háskólinn á Akureyri býður nú til dæmis upp á nám á íþróttakjörsviði í kennaradeild sinni. Auk þess er í skoðun að fá fleiri leikmenn til liðsins.
Jónatan mun samhliða þjálfa fleiri flokka en honum til aðstoðar verður Þorvaldur Þorvaldsson. Þorvaldur er góðkunningi innan raða KA en þeir félagar léku einmitt báðir með KA og síðar Akureyri í meistaraflokki.
Handknattleiksdeild KA lýsir yfir mikilli ánægju með ráðninguna.