Flýtilyklar
Ávarp formanns KA á 91 árs afmælinu
Ingvar Már Gíslason formaður KA flutti áhugavert og flott ávarp í gær á 91 árs afmælisfagnaði félagsins. Þar fór hann yfir viðburðarríkt ár sem nú er að baki auk þess að flytja fréttir af samningstöðu félagsins við Akureyrarbæ.
Kæru afmælisgestir gleðilegt ár og verið velkomin til afmælisfagnaðar okkar KA manna.
Ég vil í upphafi minnast einkar góðs KA manns sem féll frá á árinu. Haraldur Sigurðsson, fyrrverandi formaður og heiðursfélagi KA lést þann 28. september síðastliðinn. Lalli eins og hann var gjarnan kallaður var gegnheill KA maður sem fylgdist ákaflega vel með því sem var að gerast í félaginu og hafði mikinn áhuga á framgangi þess. Ég bið ykkur að rísa úr sætum í virðingaskyni við minningu hans.
Það var ekki löngu eftir að ég tók við sem formaður KA að ég rakst á Lalla á förnum vegi. Í því stutta spjalli var mér ljóst að þar fór einstaklingur sem hafði einlæga ástríðu fyrir félaginu sínu, sögu þess og framþróun. 93 ára maðurinn var sem alfræðiorðabók um félagið okkar og var mjög annt um að saga þess yrði skráð og varðveitt. Hann ráðlagði mér heilt „Ingvar þú verður að passa uppá söguna, taka myndir og varðveita, það er mikilvægt, sagði hann“
Þetta var algjörlega hárrétt og gott veganesti fyrir mig. Sagan er okkur ákaflega dýrmæt, í henni finnst sú tilfinning sem í því felst að halda með íþróttafélagi, sú tilfinning að vera KA maður. Íþróttafélög hafa nefnilega þá tilhneigingu til að grafa sig inn í hjörtu manns og víkja aldrei þaðan sama á hverju gengur. Við upplifum augnablik sigra og ósigra, vellíðunar og reiði og erum þátttakendur í því að skrifa sögu félagsins okkar, sem lifir þó við hverfum frá.
Þann 1. maí heiðruðum við KA menn heiðursfélaga okkar í tilefni af 90 ára afmæli félagsins. Þar flutti Lalli ræðu sem hann áður hafði flutt í 50 ára afmæli félagsins. Þessa ræðu færði hann félaginu að gjöf til varðveitingar að samkomunni lokinni.
Þar segir meðal annars: „Á tímamótum sem þessum er eðlilegt að litið sé yfir farinn veg og einhver kann að spyrja, hvert hefir orðið okkar starf? Höfum við gengið til góðs? Við teljum að við höfum stuðlað að líkams- og heilsurækt fjölda ungra karla og kvenna, veitt þeim nokkurn félagslegan þroska og andlegt heilbrigði. Eflaust má finna einhversstaðar veilur í starfinu en engum getur dulist að markmiðið er gott og göfugt og ætlað einstaklingum, félaginu og bæjarfélaginu til góðs.
Okkur ber ætíð að hafa í huga hið uppeldislega og félagslega gildi íþróttanna. Við þurfum að minnast þess að samstarf drengskapar og tillitssemi við aðra þarf að sitja í fyrirrúmi og þá reynslu og lærdóm sem menn öðlast í íþróttaiðkun og íþróttakeppnum, þarf að taka með sér út í lífið og beita þar af sanngirni og skynsemi á hinum mikla leikvelli lífsins.“
Ingvar ásamt nokkrum fyrrum formönnum KA, þeim Guðmundi Heiðari Heiðrekssyni, Hermanni Sigtryggssyni, Hrefnu Gunnhildi Torfadóttur og Sigmundi Þórissyni.
41 ári síðar á þetta enn við, tilgangur þess að vera KA maður er ekki sá einn að upplifa gleðina og sorgina í sigrum og ósigrum, heldur svo og að tryggja að ungir KA menn öðlist þroska og færni sem nýtist á leikvelli lífsins. Við getum verið stolt af sögu félagsins sem og stolt af þeirri sögu sem við erum þátttakendur í að búa til. KA hefur blómstrað undanfarin ár, starfsemin hefur aldrei verið umfangsmeiri, iðkendur aldrei verið fleiri, við eigum íþróttafólk og keppnislið í fremstu röð og sjálfboðaliðar félagsins vinna óeigingjarnt starf þar sem einu verðlaunin eru vellíðunartilfinningin þegar félaginu þeirra gengur vel.
Það má segja að á margan hátt hafi gustað um afmælisbarnið á 90 ára afmælisárinu. Það hafði í nógu að snúast á íþrótta, félagslega og pólitíska sviðinu.
Í upphafi árs héldum við stórglæsilega afmælisveislu þar sem KA menn komu saman og fögnuðu á sinn einstaka hátt. Andrúmsloftið og krafturinn sem maður fann hjá þeim 500 gestum sem mættu til hátíðarveislunnar var ólýsanlegur. Það eru einmitt slík augnablik sem minna mann á hversu mikilvægt það er að tilheyra. Það að tilheyra hóp eða félagi nærir í manni sálina og minnir mann á mennskuna í okkur sjálfum. Að mínum dómi er þetta eitt mikilvægasta hlutverk íþróttafélags að búa til vettvang þar sem einstaklingurinn, algjörlega óháð öllu, getur blómstrað og fundið sinn vettvang, hvort sem það er í gegnum íþróttirnar sjálfar eða hið félagslega starf. Þar höfum við KA menn staðið okkur vel og ætlum okkur að halda áfram á þeirri vegferð að efla félagið okkar að innan sem utan.
Mikilvægi KA í samfélaginu hér á Akureyri er gríðarlegt. Við berum mikla ábyrgð á þroska okkar iðkenda og höfum uppeldislegt hlutverk gagnvart yngri iðkendum. Við erum grunnurinn að því að afreksfólk hafi vettvang til að stunda æfingar og keppni með það að markmiði að efla sig sjálft og ná árangri sem nær langt út fyrir okkar félag. Við gegnum hlutverki í skólastarfi og trekkjum að þúsundir ferðamanna til bæjarins í gegnum mót og keppnisleiki. Það er ekki alltaf auðvelt að standa undir þessari ábyrgð og til þess þarf fjármuni. Á þeim vettvangi hefur afmælisbarnið þurft að glíma allt árið 2018. Í þeirri glímu höfum við aðeins verið að sækjast eftir eðlilegu framlagi fyrir þá þjónustu sem félagið innir af hendi fyrir samfélagið sitt svo við getum sinnt okkar starfi með sómasamlegum hætti. Líkt og í öðrum kappleikjum hefur þessi leikur milli pólitíkur og íþróttafélags reynt á styrk og kraft félagsins ekki síður en þolrifin. Það skýtur að mínum dómi skökku við að fjölmennasta íþróttafélag bæjarins þurfi að berjast fyrir fjárhagslegri tilvist sinni. Ég hef áður sagt að umfang í starfsemi KA hafi tekið risastökk á síðastliðnum árum, ekki síst vegna mikillar uppbyggingar á okkar nærsvæði. Við höfum tekið því fagnandi og viljum taka við fleiri iðkendum og sinna þeim sem best við getum. Við erum einnig meðvituð um þá ábyrgð sem er lögð á okkar herðar og erum tilbúin til að standa undir þeirri ábyrgð. En það er algjört lykilatriði að mótaðilinn sem setur leikreglurnar, sem stýrir uppbyggingu bæjarfélagsins og er ábyrgur fyrir framkvæmd meðal annars íþróttastefnu bæjarins sé reiðubúinn að greiða eðlilegt gjald fyrir þá þjónustu sem KA veitir samfélaginu.
Nú sér fyrir endann á fyrstu lotu glímunnar þar sem drög að nýjum rekstrarsamningi við Akureyrarbæ sem gildir til næstu 5 ára eru nánast fullbúin og verða kláruð og undirrituð á næstu dögum. Við teljum að með þeim samningi verði reksturinn í góðum farvegi.
Um leið hefst næsta lota af fullum krafti þar sem það er skýlaus vilji KA að tafarlaust verði hafinn undirbúningur að því að laga aðstöðu félagsins. Okkar vilji er mjög skýr, öll uppbygging KA verði hér á þessu svæði líkt og þegar hefur verið kynnt félagsmönnum og stjórnmálamönnum. Á fjölmennum fundi okkar hér fyrir kosningar kynntum við þessar hugmyndir og fengum ákaflega jákvæð viðbrögð við þeim. Nú er hinsvegar kominn tími til að láta verkin tala og hvet ég bæjaryfirvöld til að hefja viðræður við KA um hvernig standa megi að uppbyggingu félagsins nú þegar.
KA menn mega vera stoltir af félaginu sínu. Innan okkar vébanda eru starfræktar 5 deildir sem hver um sig með ólíkum hætti hefur blómstrað á árinu. Við eigum lið í efstu deild í öllum hópíþróttagreinum bæði í karla og kvennaflokki, eignuðumst 41 Íslandsmeistara og landsliðsmenn okkar voru 21.
Í blakinu urðu 2 lið Íslands og bikarmeistarar, meistaraflokkur karla og 3.fl kvenna. Auk þess varð meistaraflokkur karla deildarmeistari og meistari meistaranna á árinu 2018. Starf blakdeildar var afar öflugt á árinu, fyrir utan æfingar iðkenda voru hér í KA heimilinu 12 blakleikir í meistaraflokki, 7 blakmót og glæsilegt öldungamót. Að auki sá blakdeild KA um umsjón með Íslandsmeistaramótinu í strandblaki sem fram fór í Kjarnaskógi í sumar. Núverandi keppnistímabil hefur farið vel af stað, bæði kvenna og karlaliðið KA eru í toppbaráttu í Mizunodeildunum, karlarnir í 1. sæti og konurnar í 2.sæti.
Handknattleiksdeild KA hefur eflst á síðasta ári. Við sendum 11 lið til keppni á Íslandsmóti frá 4. flokki til meistaraflokks kvenna og karla, iðkendafjöldi hefur verið að aukast, sérstaklega hjá drengjum. Meistaraflokkar okkar unnu sig upp um deild þar sem meistaraflokkur kvenna sigraði Grilldeild kvenna glæsilega en karlarnir umspil um sæti í efstu deild. Þá stóð kvennaliðið sig frábærlega í bikarkeppni kvenna þar sem þær spiluðu í úrslitahelgi bikarkeppni HSÍ en töpuðu í undanúrslitum eftir æsispennandi leik gegn Haukum. Bæði lið hafa staðið sig vel það sem af er í Olísdeildum og blásið á margar hrakspár fyrir tímabilið.
Júdómenn hjá KA hafa á árinu unnið til fjölda verðlauna bæði hér heima og erlendis. 5 einstaklingar urðu Íslandsmeistarar og þá voru þau Alexander Heiðarsson og Anna Soffía Víkingsdóttir þriðju í kjöri á íþróttamanns og konu Akureyrar árið 2017. Aðstaða Júdómanna er í Laugargötu en aðalstjórn hefur samþykkt að deildin færi sig um set á árinu og að æfingar verði að nýju stundaðar hér í KA-heimilinu. Þá hélt Júdódeild glæsilegt vormót Júdósambands Íslands í flokki fullorðinna hér í KA heimilinu í mars þar sem 25 keppendur í 8 þyngdarflokkum mættu til leiks.
Knattspyrnudeild er sem fyrr stærsta deild félagsins. Alls sendi félagið 26 lið til keppni á Íslandsmót í knattspyrnu yngri flokka. Félagið varð Íslandsmeistari í 4. flokki kvenna, vann bikarameistaratitil Norð-austurlands í 3. flokki kvenna og karla og vann 3. flokkur kenna einnig gullverðlaun á REY cup. Í 2. flokki kvenna hlaut Þór/KA silfur í bikarkeppni KSÍ. Meistaraflokkar KA og Þór/KA spila sem fyrr í efstu deild, Pepsi deildinni. Þór/KA varð meistari meistaranna í upphafi keppnistímabilsins og endaði í 2. sæti í Pepsi deildinni 2018 þá náði liðið í 32 liða úrslit meistaradeildarinnar þar sem liði tapaði fyrir stórliði Wolfsburg. Í lok árs endurnýjuðu svo KA og Þór samstarf sitt um rekstur Þór/KA til næstu 5 ára. Meistaraflokkur karla endaði í 7. sæti Pepsideildarinnar eftir sveiflukennt en skemmtilegt sumar. Á vegum KA voru spilaðir 188 keppnisleikir fyrir utan fjöldan allan af glæsilegum mótum sem félagið stendur fyrir þar sem hápunkturinn er hið glæsilega N1 mót.
Starfið í Spaðadeildinni hefur blómstrað í vetur, iðkendum hefur fjölgað, sérstaklega eftir að æfingar voru alfarið færðar í Naustaskóla. Þá stóð deildin fyrir einu badmintonmóti sem gekk afar vel.
Eins og heyra má af þessum lestri er mikið líf í kringum KA. Ótaldir eru fjöldi viðburða sem félagið og deildir þess standa fyrir, námskeið, fyrirlestrar og skemmtikvöld.
Um leið og ég óska ykkur öllum til hamingju með afmælisbarnið okkar vil ég senda hvatningu til okkar allra að styðja við okkar frábæra íþróttafólk með jákvæðum og uppbyggilegum hætti sem best þið getið hvort sem það er á keppnisvellinum eða utan hans. Megi KA halda áfram að eflast og skila vel gerðum einstaklingum út á hinn mikla leikvöll lífsins.
Ingvar Már Gíslason, formaður KA.