Flýtilyklar
Ársskýrsla KA sem flutt var á aðalfundi
Ingvar Már Gíslason flutti ársskýrslu KA á aðalfundi félagsins sem fór fram á dögunum og við birtum hana hér í heild sinni. Árið 2019 var heldur betur stórt fyrir okkur KA-menn og unnust sætir sigrar á vellinum á sama tíma og deildir félagsins héldu áfram að stækka.
Samkvæmt venju hef ég skýrslu stjórnar á því að minnast látinna KA félaga.
Viðar Garðarsson andaðist 4. september síðastliðinn, þann 15. október lést heiðursfélagi KA, Ísak Guðmann, og þann 21. mars lést Birgir Steingrímur Hermannsson. Blessuð sé minning góðra KA félaga. Ég bið ykkur að rísa úr sætum í virðingaskyni við minningu þeirra.
Á aðalfundi KA fyrir ári síðan voru auk undirritaðs, Eiríkur S. Jóhannson, Sigríður Jóhannsdóttir, Þorbjörg Jóhannsdóttir og Pétur Ólafsson kjörin í stjórn félagsins, varamaður, Ragnheiður Júlíusdóttir. Stjórn skipti með sér verkum á fyrsta fundi þar sem Eiríkur var skipaður vara formaður, Sigríður gjaldkeri, Þorbjörg ritari og Pétur meðstjórnandi.
Auk stjórnarmanna sem kosnir eru á aðalfundi hafa formenn deilda seturétt á fundum aðalstjórnar þar sem þeir hafa málfrelsi og tillögurétt. Hafa deildirnar nýtt þann rétt, mætt vel á fundi og tekið með málefnalegum hætti þátt í umræðum. Ég vil nota tækifærið og þakka stjórnarmönnum fyrir vel og faglega unnin störf og ánægjulegt samstarf á árinu.
Aðalstjórn hélt tíu bókaða fundi á árinu sem er í samræmi við skipulag aðalstjórnar. Fyrir utan hefðbundin fundarstörf eru það fjölbreytileg mál sem rata á borð aðalstjórnar til umfjöllunar eða úrlausnar. Þann 7. mars 2019 var gengið frá samkomulagi við Akureyrarbæ um nýjan rekstrarsamning við félagið sem gildir til ársins 2023. Þar með lauk löngu og ströngu samningaferli þar sem tryggt var að KA geti staðið við skuldbindingar sínar er varða rekstur þeirra mannvirkja sem eru í okkar umsjón og veitt Akureyrarbæ og bæjarbúum framúrskarandi þjónustu á sviði íþrótta og skólamála.
Þann 3. apríl 2019 var gengið frá þjónustusamning við Akureyrarbæ sem er nýlunda í samstarfi bæjaryfirvalda og KA. Markmið samningsins er að stuðla að því að öll börn og ungmenni eigi þess kost að iðka heilbrigt og metnaðarfullt íþrótta og tómstundastarf við sem hagstæðust skilyrði óháð efnahag fjölskyldna. Með gerð þjónustusamningsins er að mínu mati verið að undirstrika það mikilvæga hlutverk sem félagið hefur í samfélaginu. Ég færi bæjaryfirvöldum okkar bestu þakkir fyrir framsýni, þor og vilja til að treysta KA fyrir því mikilvæga verkefni að taka þátt í heilbrigði og uppeldi ungs fólks.
Rekstur aðalstjórnar KA hefur á árinu 2019 gengið í samræmi við væntingar ekki síst fyrir tilstilli þeirra samninga sem áður er getið. Engu að síður er það og verður líklega alltaf áskorun að reka íþróttafélag, halda úti yngri flokka starfi og reka meistaraflokka. Ársvelta félagsins er komin í 445 milljónir sem myndi þykja dágott hjá hvaða fyrirtæki sem er. Með stækkandi rekstri aukast skyldur okkar og það verður mikilvægara en áður að hafa góða yfirsýn yfir rekstur félagsins og það umhverfi sem við störfum í.
Hver deild er rekin sem sjálfstæð eining og hefur þá skyldu gagnvart félaginu að gæta ábyrgðar í rekstri og tryggja að vel sé farið með fjármuni félagsins. Engu að síður eru það á endanum aðalstjórn og starfsmenn félagsins sem verða að vera til svara og bera hina endanlegu ábyrgð. Þess vegna get ég ekki lagt nægjanlega þunga áherslu á að fyrir KA hefur aldrei verið mikilvægara en áður að hafa gott og öflugt innra starf sem allir okkar frábæru sjálfboðaliðar styðja við með ráðum og dáðum alla daga ársins. Kann ég ykkur bestu þakkir kæra KA fólk fyrir ykkar framlag í þágu félagsins.
Þann 2. mars 2019 stóð aðalstjórn fyrir stefnumótunarfundi. Til fundarins var boðað með nokkuð stuttum fyrirvara en engu að síður var mæting nokkuð góð þar sem þverskurður af félagsmönnum ræddi framtíðarsýn félagsins og hvernig skipulagi þess væri best háttað. Meðal þess sem fram kom á fundinum er að mikilvægt sé fyrir félagið að hafa skýra stefnu er varðar hlutverk annarsvegar félagsins og hinsvegar þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem vinna óeigingjarnt starf fyrir félagið.
Þá kom fram skýr ósk félagsmanna að kjarnastarfsemi KA og uppbygging yrði á félagssvæði okkar hér við Dalsbraut. Óhætt er að segja að aðalstjórn fékk margar hugmyndir og verkefni til að vinna með. Úrvinnsla stefnumótunarfundar stendur enn yfir en gera má ráð fyrir að sjá fari til lands í nokkrum af þeim verkefnum sem spruttu af fundinum, m.a. skipulag á rekstri félagsins.
Á aðalstjórnarfundi þann 25. mars 2019 samþykkti aðalstjórn jafnréttisáætlun félagins en hana má finna á heimasíðu okkar KA.is. Íþróttafulltrúi KA Siguróli Sigurðsson hafði veg og vanda að þeirri vinnu og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Jafnréttisáætlun byggir á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og einnig vinnu Íþrótta og Ólympíusambands Íslands og Jafnréttisstofu. Jafnréttisfulltrúar KA eru Ingunn Eir Eyjólfsdóttir og Siguróli Sigurðsson.
Nokkrar breytingar urðu á starfsemi félagsins síðastliðið haust þegar Júdódeild KA flutti á ný í KA-heimilið. Í aðdraganda þess flutnings var gerður nýr leigusamningur við TFW um að starfsemi fyrirtækisins færðist í hátíðarsal okkar KA manna. Við þessar breytingar þrengdi enn að okkar starfsemi en að sama skapi er ákvörðunin varða að leið okkar í því að sem mest af starfsemi KA verði hér á svæðinu.
Í byrjun ágúst var gengið frá 3 ára samkomulagi við íþróttafélagið Þór um rekstur á kvenna handknattleiksliði KA/Þórs. Um er að ræða sambærilegan samning og félögin hafa sín í milli um kvennaknattpyrnu. Félögin eru samstarfsaðilar um rekstur og uppbyggingu kvenna handknattleiks á Akureyri. Samstarfið hefur verið með ágætum og kraftur í þeim einstaklingum sem að verkefninu koma og er ég þess fullviss að samstarfið verði til þess að auka vega kvenna í handknattleik á Akureyri.
Töluverð umræða hefur verið í bæjarfélaginu um sameiningu íþróttafélaga. Sú umræða á fyrst og fremst rætur sínar í íþróttastefnu Akureyrarbæjar. Þar kemur fram mjög skýr framtíðarsýn. Að leitast skuli við að hafa félög færri en jafnframt stærri og öflugri, iðkendum til hagsbóta. Stefnan að þessu markmiði er að á Akureyri verði starfrækt færri, stærri og faglegri fjölgreinafélög í framtíðinni. Ljóst er á þeirri aðgerðaráætlun sem fylgir að KA er og verður að vera þátttakandi í þessari þróun.
Framhjá því verður þó ekki horft að hér er oftar en ekki um mikið tilfinningamál að ræða þar sem rótgróin íþróttafélög geta ekki hugsað sér að æfa og keppa undir öðrum merkjum eða nafni. Sjálfur er ég sekur um þessa tilfinningasemi og hef mikinn skilning á þeirri stóru ákvörðun og áskorun sem mörg smærri íþróttafélög standa frammi fyrir. Ég ætla þó fyrst að fara að hafa áhyggjur af íþróttafélögum þegar enginn hefur tilfinningu fyrir þeim. Það eru þessar tilfinningar sem hvetja okkur áfram og gera það að verkum að við erum tilbúinn til að leggja gríðarlega mikið á okkur félaginu okkar til heilla.
Við sem störfum í íþróttahreyfingunni höfum skyldur gagnvart okkar iðkendum og þeim íþróttagreinum sem stundaðar eru í félaginu okkar. Okkar skylda er að horfa til þess hvernig búa megi þannig um að umhverfi og aðstaða félagsmanna okkar sé sem best. KA hefur á árinu átt bæði í formlegum og óformlegum viðræðum við önnur íþróttafélög um að þau gangi inní KA. Þau samtöl hafa ekki leitt af sér stofnun á nýjum deildum innan KA. Engu að síður munum við áfram vera tilbúin að taka þátt í þeirri vegferð sem íþróttastefnan leggur og munum ekki láta okkar eftir liggja til að taka skynsamlegar ákvarðanir fyrir íþróttalífið á Akureyri.
Hér hef ég tæpt á mörgum af þeim verkefnum sem aðalstjórn hefur fengið til umfjöllunar síðastliðið ár. Órætt er þó líklega eitt okkar stærsta verkefni í fjölmörg ár, framtíðaruppbygging á félagssvæði okkar KA manna. Í byrjun mars var skipaður þverpólitískur starfshópur sem falið var að meta kostnað og sviðsmyndir varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri. Hlutverk hópsins var að greina gróflega stofn og rekstrarkostnað við helstu mannvirki sem eru í umræðu. Einnig að setja upp nokkrar sviðsmyndir um hvernig röðun uppbyggingar og samspil verkefna gæti orðið auk þess að meta mögulegan framkvæmdahraða á sviðsmyndum útfrá fjárhagslegu svigrúmi bæjarins og fjárþörf verkefna.
KA líkt og önnur íþróttafélög skilaði gögnum til nefndarinnar í lok apríl þar sem fram kom framtíðarsýn félagsins. Þar kom fram sá vilji félagsins að vilja vaxa sem fjölgreinafélag í samræmi við stefnu Akureyrarbæjar og ÍBA og að nær öll starfsemi félagsins verði á félagssvæði okkar hér við Dalsbrautina. Okkar óskir hafa verið þær að æfinga og keppnisaðstaða rísi á svæðinu ásamt þeirri félagsaðstöðu sem samræmist umfangi okkar starfsemi hverju sinni. Þá lagði félagið einnig til að annað íþróttahús myndi rísa hér á svæðinu.
Í lok október skilaði starfshópurinn skýrslu sinni þar sem sett er fram stefna um forgangsröðun í nýfjárfestingum íþróttamannvirkja á vegum Akureyrarbæjar. Sett voru fram ellefu verkefni til næstu 15 ára þar sem gróflegur kostnaður var metinn á 6.750 m.kr.
Fram kemur í skýrslunni að verkefni á KA svæði er raðað númer 3, 4 og 11 þar sem gervigras og stúka er númer 3 og félagsaðstaða númer 4. Í því felst ákveðin viðurkenning á þeirri stöðu sem félagið hefur fundið sig í undanfarin ár eða allt frá því hætt var við framkvæmdir hér á svæðinu 2008. Fram kemur í rökstuðningi starfshópsins að KA hefur stækkað á undanförnum árum og iðkendum fjölgað sem hefur þær afleiðingar að að núverandi aðstaða er of lítil fyrir daglega starfsemi félagsins.
Eðlilega eru skiptar skoðanir um hvaða leiðir skuli fara í uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum. Í mínum huga hefur vilji KA og bæjaryfirvalda hverju sinni síðustu 15 ár verið nokkuð skýr sem meðal annars kemur fram í samningum fyrri ára, íþróttastefnu bæjarins og nú þeirri skýrslu sem liggur frammi.
Skýrslan er mikið fagnaðarefni fyrir okkur KA menn og enn gleðilegra að nú get ég greint frá því að í vikunni barst mér staðfesting á því frá bæjaryfirvöldum að búið væri að ákveða að skipa vinnuhóp sem samanstendur af fulltrúum bæjarstjórnar og fulltrúum KA til að hefja formlegar viðræður um hvernig standa má að uppbyggingu á félagssvæði okkar. Þetta er afar jákvætt og stórt skref í átt að bættri aðstöðu fyrir alla okkar iðkendur og félagsmenn. Við förum með opnum hug í samtalið við bæjaryfirvöld með það í huga að fá fram jákvæða niðurstöðu fyrir KA sem og Akureyringa alla. Geri ég fastlega ráð fyrir því að fyrsti fundur verði boðaður strax í næstu viku.
Undanfarnar vikur hafa verið krefjandi fyrir íþróttafélög vegna þeirra fordæmalausu stöðu sem skapaðist í samfélagi manna um allan heim. Starfsfólk KA tók verkefninu af miklu æðruleysi og leysti úr vandasamri stöðu af mikilli fyrirmynd. Kann ég öllu starfsfólki félagsins bestu þakkir fyrir vel unnin störf nú sem fyrr. Áhrifin af þeim veirufaraldri sem nú hefur geisað munu vara langt fram á þetta ár í það minnsta. Við erum vel í stakk búin til að takast á við krefjandi verkefni. Í hremmingum sem þessum þjappa KA menn sér saman og leggjast enn harðar á árarnar. Þannig virkar hinn sanni KA andi.
Hjá KA voru starfræktar nokkrar nefndir á árinu. Viðburðanefnd, Sögunefnd, Fjárhagsráð og laganefnd. Kann ég þeim sem tóku þátt í vinnu nefnda bestu þakkir. Þá vil ég færa samstarfsfólki í aðalstjórn, öðrum deildum og ráðum og framkvæmdastjóra félagsins bestu þakkir fyrir gott samstarf.
Sem fyrr eru merkisberar KA félaginu til sóma. KA spilar í efstu deild í öllum hópíþróttum sem stundaðar eru hjá félaginu, yngri flokka starf er öflugt í öllum deildum og viðurkenningum og verðlaunagripum fjölgar á hverju ári. Starfsemin eflist dag frá degi og stöndum við sannarlega undir því hlutverki okkar að gera hverjum einstaklingi hjá KA kleift að efla þroska sinn og færni á íþróttasviðinu.
Áfram KA