Flýtilyklar
Brynjar Ingi skoraði fyrsta landsliðsmarkið
Brynjar Ingi Bjarnason var enn og aftur í byrjunarliði A-landsliðs Íslands í knattspyrnu er Ísland sótti Pólland heim í æfingaleik í dag. Binni sem kom inn sem nýliði í hópinn gerði sér lítið fyrir og var í byrjunarliðinu í öllum þremur leikjunum í þessu landsliðsverkefni.
Binni byrjaði á að leika fyrstu 80. mínúturnar gegn Mexíkó, svo lék hann allan leikinn í sigri á Færeyjum og loks í dag lék hann aftur allan leikinn gegn Póllandi. Hann gerði nú gott betur en bara að leika allan leikinn því Binni skoraði stórglæsilegt mark í upphafi síðari hálfleiks og kom Íslandi í 1-2.
Pólverjar sem eru með gríðarlega sterkt lið og eru í lokaundirbúningi fyrir EM en íslenska liðið átti virkilega góðan leik og lokaði vel á sóknarlínu Pólverja sem var leidd af einum besta framherja heims, Robert Lewandowski.
Albert Guðmundsson kom Íslandi yfir á 25. mínútu þegar hann potaði boltanum í netið uppúr hornspyrnu en heimamenn jöfnuðu metin á 34. mínútu þegar boltinn datt fyrir Pietr Zielenski í teignum og hann skoraði af öryggi.
Hálfleikstölur því 1-1 en strax í upphafi síðari hálfleiks skoraði Binni frábært mark þegar aukaspyrna Íslands datt fyrir hann í teignum og hann þrumaði boltanum af krafti upp í þaknetið. Fyrsta landsliðsmarkið því staðreynd og það af dýrari gerðinni í aðeins þriðja landsleik okkar manns en það er alveg ljóst að þeir verða miklu fleiri!
Íslenska liðið spilaði agaðan leik út síðari hálfleikinn en heimamenn náðu að jafna metin rétt fyrir leikslok og tryggðu sér því 2-2 jafntefli. Flottri landsliðstörn því lokið þar sem strákarnir áttu mjög góða leiki gegn sterkum liðum Póllands og Mexíkó auk þess að leggja Færeyjar að velli.
Brynjar Ingi kom sá og sigraði í leikjunum þremur og vakti verðskuldaða athygli, það er alveg ljóst að okkar maður á eftir að taka stórt skref áfram á sínum ferli í kjölfarið.