Brynjar Ingi íþróttakarl Akureyrar 2021

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Blak

Íþróttabandalag Akureyrar stóð fyrir glæsilegu hófi í kvöld þar sem íþróttakarl og íþróttakona Akureyrar fyrir árið 2021 voru valin. Alls áttu KA, KA/Þór og Þór/KA sjö fulltrúa í kjörinu og var Brynjar Ingi Bjarnason knattspyrnumaður kjörinn íþróttakarl Akureyrar.

Brynjar Ingi átti heldur betur eftirminnilegt ár en hann steig stór skref á sínum ferli þegar hann fékk sitt fyrsta tækifæri með A-landsliði Íslands og er nú fastamaður í byrjunarliðinu. Þá gerðist hann atvinnumaður er hann gekk til liðs við ítalska liðið Lecce í sumar og aftur átti hann vistaskipti undir lok árs er norska liðið Vålerenga keypti hann til sín.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir handknattleikskona varð önnur í kjöri íþróttakonu Akureyrar en Aldís Kara Bergsdóttir skautadrottning varð hlutskörpust. Rut fór fyrir stórbrotnum árangri KA/Þórs á árinu þar sem liðið hampaði öllum þeim titlum sem í boði voru í handknattleik kvenna og var kjörin besti leikmaður Íslandsmótsins. Liðsfélagi hennar hún Rakel Sara Elvarsdóttir varð í 4. sæti í kjörinu en Rakel hefur þrátt fyrir ungan aldur fyrir löngu tryggt sig í sessi í liðinu og lék á árinu sína fyrstu A-landsleiki.

Arna Sif Ásgrímsdóttir knattspyrnukona varð í 3. sæti í kjörinu en hún lék eins og undanfarin ár lykilhlutverk í liði Þórs/KA sem þrátt fyrir uppbyggingarfasa leikur áfram í deild þeirra bestu en Arna Sif var fyrirliði liðsins á síðustu leiktíð rétt eins og undanfarin ár.

Árni Bragi Eyjólfsson handknattleiksmaður varð í 4. sæti karlamegin en Árni Bragi átti stórbrotið tímabil með KA á síðasta vetri og var að honum loknum kjörinn besti leikmaður Íslandsmótsins en hann var markakóngur Olísdeildar og átti stóran þátt í því að KA steig stórt skref áfram er liðið lék í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitil karla.

Blakkonan Paula del Olmo Gomez varð loks í 5. sæti í kjöri íþróttakonu Akureyrar en hún var stigahæsti leikmaður úrvalsdeildar kvenna á síðustu leiktíð og fór fyrir öflugu liði KA er lék til úrslita í Kjörísbikarnum og barðist hart um Íslands- og Deildarmeistaratitilinn.

Martha Hermannsdóttir fyrirliði KA/Þórs hlaut hvatningarverðlaun ÍBA en Martha er frábær leiðtogi liðsins og stórkostleg fyrirmynd fyrir unga iðkendur. Hún hefur gefið gríðarlega mikið af sér á sínum langa meistaraflokksferli og hefur aldrei dregið úr sínu framlagi þrátt fyrir miklar tarnir í vinnu og fjölskyldulífinu.

Þá hlutu þau Arnór Ísak Haddsson, Ásdís Guðmundsdóttir og Jóna Margrét Arnarsdóttir afreksstyrk ÍBA en þau hafa öll þrátt fyrir ungan aldur náð langt í sínum greinum og stefna enn lengra á komandi árum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband