Brotlending í Garðabænum

Handbolti
Brotlending í Garðabænum
Tarik var manna skástur (mynd: Þórir Tryggva)

KA mætti í Garðabæinn og mætti þar Stjörnumönnum í 5. umferð Olís deildar karla. Eftir flotta byrjun á tímabilinu þar sem KA vann tvo magnaða sigra hafa komið tveir tapleikir. Heimamenn höfðu hinsvegar byrjað illa og voru á botninum án stiga fyrir leik dagsins.

Leikurinn fór ansi illa af stað en bæði lið gerðu klaufaleg mistök og virtist sem spennustigið væri aðeins of hátt þrátt fyrir að mæting áhorfenda í stúkuna væri engin. Garðbæingar voru þó fyrr að koma sér í gang og leiddu leikinn.

Er fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 10-7 og leikurinn enn í járnum. Þá varð hinsvegar algjört hrun á leik KA liðsins og var munurinn skyndilega átta mörk. Hálfleikstölur voru 19-12 og spennan algjörlega farin úr leiknum.

Í síðari hálfleik varð munurinn mestur tólf mörk og var í raun algjör hörmung að fylgjast með leik okkar manna. Lokatölur voru 31-21 og sigur Stjörnunnar vægast sagt sannfærandi og ljóst að þeir eru að koma sér í gang eftir erfiða byrjun.

Hinsvegar er ljóst að okkar lið þarf að fara vel yfir hvað átti sér stað í okkar herbúðum. Varnarleikurinn sem hefur verið aðalsmerki KA í vetur var engan veginn til staðar og hvort sem var að ræða gegnumbrot eða skot fyrir utan þá hafði Stjörnuliðið nákvæmlega ekkert fyrir því að kaffæra okkar lið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband