Bríet Fjóla skrifar undir tveggja ára samning við Þór/KA

Fótbolti

Bríet Fjóla Bjarnadóttir skrifaði í dag undir tveggja ára samning við Þór/KA en Bríet sem er nýorðin 15 ára gömul hefur þrátt fyrir ungan aldur nú þegar leikið 21 meistaraflokksleik, þar af 15 í Bestu deildinni.

Bríet er gríðarlega mikið efni og hefur hún verið að vinna sér inn stærra og stærra hlutverk í sterku liði Þórs/KA að undanförnu en hún kom fyrst við sögu í leik með meistaraflokki í september 2023 í eftirminnilegum 3-2 sigri gegn Breiðabliki, en leikurinn var jafnframt minningarleikur um afa hennar, Guðmund Sigurbjörnsson, fyrrverandi formann Þórs.


Bríet kemur úr afar sigursælum árgangi hjá KA en stelpurnar unnu meðal annars TM mótið tvö ár í röð auk þess að verða Íslands- og Bikarmeistarar

Bríet Fjóla hefur verið í meistaraflokkshópi Þórs/KA í vel á annað ár, en hefur jafnframt leikið með 2. og 3. flokki félagsins á sama tíma og hún var enn lögleg sem leikmaður í 4. flokki. Enn og aftur leitar Þór/KA ekki langt yfir skammt að góðum og efnilegum knattspyrnukonum enda koma þær reglulega upp úr starfi yngri flokka félagsins og félaganna sem standa að Þór/KA.


Dóra Sif Sigtryggsdóttir, Arna Hrönn Skúladóttir, Bjarni Freyr Guðmundsson, Bríet Fjóla Bjarnadóttir og Jóhann Kristinn Gunnarsson við undirritunina í dag

„Það er alltaf mikið gleðiefni þegar ungar og efnilegar heimastelpur semja við félagið sitt,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA. „Bríet Fjóla er sannarlega ein af þeim sem eiga framtíðina fyrir sér hér í Þór/KA. Þrátt fyrir ungan aldur er Bríet Fjóla nú þegar komin með nokkra reynslu af Bestu deildinni og er að taka góð og ákveðin skref á sínum ferli. samviskusöm, dugleg, hæfileikarík og góður liðsfélagi sem leggur sig alltaf alla fram á æfingum og í leikjum. Við hlökkum mikið til að vinna með henni áfram og sjá hana blómstra á vellinum.“

Stjórn Þórs/KA óskar Bríeti Fjólu til hamingju með hennar fyrsta samning við félagið og væntir mikils af henni í framtíðinni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband