Flýtilyklar
Birkir og Haukur Heiðar á leið á EM
KA-mennirnir Birkir Bjarnason og Haukur Heiðar Hauksson voru valdir í 23-manna lokahóp Íslands sem tekur þátt í Evrópumótinu í Frakklandi í sumar.
Landsliðsþjálfarar Íslands þeir Lars Lagerback og Heimir Hallgrímsson tilkynntu í dag hvaða 23 leikmenn myndu leika fyrir Íslands hönd á EM í Frakklandi í sumar. Í hópnum eru tveir uppaldir leikmenn KA.
Birkir Bjarnason sem leikur nú með Basel í Sviss. Birkir hóf að æfa knattspyrnu með KA ungur að árum en flutti fljótlega til Noregs. Hans síðustu leikir með KA voru á ReyCup þegar hann var 14 ára en þá kom hann í heimsókn frá Noregi. Birkir á að baki 46 A-landsliðs leiki fyrir Íslands hönd og skorað 6 mörk.
Haukur Heiðar Hauksson sem nú leikur með AIK í Svíþjóð. Haukur Heiðar lék upp alla yngri flokkana með KA og varð meðal annars Íslandsmeistari með 3.flokki félagsins árið 2007. Haukur lék síðan 4 keppnistímabil í meistaraflokki og var fyrirliði KA liðsins árið 2011. Haukur á að baki 91 leik í deild og bikar með KA og skoraði 8 mörk. Haukur hefur leikið 6 A-landsliðs leiki fyrir Íslands hönd.
Við sendum Birki og Hauki heillaóskir um gott gengi á Evrópumótinu í sumar. Áfram Ísland!